Birna Þórisdóttir 25. september 2020

"Við þurfum að gera enn betur og vitum að góðar rannsóknir eru forsenda framfara"

Halla Þorvaldsdóttir skrifaði í Fréttablaðið 24. september um rannsóknir til framfara.

Í dag á alþjóðlegum degi krabbameinsrannsókna er vakin athygli á mikilvægi krabbameinsrannsókna til framfara. 

Krabbameinsfélagið hefur staðið að krabbameinsrannsóknum í hartnær 70 ár. Að stundaðar séu krabbameinsrannsóknir hér á landi skiptir máli. Bæði vegna þess að hér á landi eigum við afar færa vísindamenn sem leggja sitt af mörkum til að ná enn betri árangri í baráttunni gegn krabbameinum og til að rannsaka stöðuna hér á landi, til dæmis aðbúnað og reynslu fólks. Eftir tilkomu Vísindasjóðs félagsins árið 2015 hefur 30 íslenskum rannsóknum verið úthlutað 227 milljónum. Styrkir Vísindasjóðsins hafa blásið nýju lífi í krabbameinsrannsóknir á Íslandi. 

Á málþingi í hádeginu í dag, sem streymt verður á krabb.is, verða kynntar fyrstu niðurstöður úr Áttavitanum, yfirstandandi rannsókn Krabbameinsfélagsins. Yfir 1.100 manns hafa þegar tekið þátt í rannsókninni og svarað ítarlegum spurningum um reynslu af greiningu og meðferð. Með niðurstöðunum fást mikilvægar upplýsingar sem félagið mun nýta til að vinna að málefnum sjúklinga. Einnig verða á málþinginu kynntar þrjár af þeim þrjátíu rannsóknum sem hlotið hafa styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins. 

Stór skref hafa verið stigin varðandi gæðamat á greiningum og meðferð krabbameina með samstarfi Krabbameinsfélagsins, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri sem verður kynnt á málþinginu. Með staðlaðri skráningu fæst yfirsýn yfir árangur og gæði sem verður hægt að bera saman við önnur lönd. Slíkt nýtist á margan hátt í þágu sjúklinga. 

Krabbameinsrannsóknir eru undirstaða þess góða árangurs sem náðst hefur varðandi krabbamein. Hér á landi hafa lífslíkur kvenna tvöfaldast á síðustu 50 árum og dánartíðni kvenna af völdum krabbameina hefur lækkað um 35%. Það er hins vegar ekki nærri nóg því hér greinist einn af hverjum þremur landsmönnum með krabbamein á lífsleiðinni. Við þurfum að gera enn betur og vitum að góðar rannsóknir eru forsenda framfara. 

Ágóði af sölu Bleiku slaufunnar 2020 mun renna til krabbameinsrannsókna.

Birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 24. september 2020.