Um átakið

Bleika slaufan er árlegt árverkni- og fjáröflunarátak Krabbameins­félagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. 

 

Verum bleik - fyrir okkur öll. Styðjum baráttuna gegn krabbameinum hjá konum

Inntak Bleiku slaufunnar í ár er slagorðið Verum bleik - fyrir okkur öll. Steinarnir í slaufunni sjálfri, sem eru 
bæði margir og ólíkir, tákna 
margbreytileika okkar og 
þéttan stuðning samfélagsins. Krabbamein kvenna snertir okkur öll einhvern tímann á lífsleiðinni og við getum öll lagt okkar af mörkum í baráttunni.

Að vera bleik þýðir að taka þátt í átakinu, sýna samstöðu (bókstaflega) með málstaðnum og kaupa Bleiku slaufuna. Sýnileg samstaða getur flutt fjöll og breytt öllu fyrir þau sem glíma við krabbamein og aðstandendur þeirra. Með gleði og von að vopni getum við gert kraftaverk. Verum bleik - fyrir okkur öll. 

Dánartíðni kvenna af völdum krabbameina hefur lækkað um 35% á síðustu 50 árum og lífslíkur kvenna hafa nær tvöfaldast. 

Krabbameinsfélaginu er ekkert óviðkomandi þegar kemur að krabbameinum.  Félagið vinnur á fjölbreyttan hátt að því að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa og bæta lífsgæði þeirra sem greinast og aðstandenda þeirra.

Með kaupum á Bleiku slaufunni eða öðrum stuðningi við átakið gerir þú félaginu kleift að:

 • styðja fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra með ókeypis ráðgjöf hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa.
 • styrkja íslenskar krabbameinsrannsóknir sem snúa meðal annars að orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.
 • sinna ýmiss konar fræðslu, forvarnarstarfi, námskeiðshaldi og fleiru sem miðar að því að draga úr líkum á krabbameinum og bæta líf fólks með krabbamein.
 • sinna hagsmunagæslu og beita sér fyrir bættri aðstöðu fyrir fólk með krabbamein.

Kynntu þér starfsemi Krabbameinsfélagsins nánar á vefsíðu félagsins og í ársskýrslu félagsins þar sem farið er ítarlega yfir starfsemi ársins.

Takk fyrir stuðninginn. Þitt framlag er skiptir máli.

Allur ágóði Bleiku slaufunnar rennur til fjölbreyttar starfsemi Krabbameinsfélagins svo hægt sé að vera til staðar fyrir þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur, stunda öfluga fræðslu og forvarnir auk fjölbreytts rannsóknarstarfs.

Hvers vegna?

Einn af hverjum þremur Íslendingum má búast við að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Sem betur fer tekst sífellt betur að greina krabbamein tímanlega, ráða niðurlögum þeirra og halda sjúkdómunum í skefjum og nú er svo komið að næstum 70% þeirra sem greinast með krabbamein eru á lífi fimm árum síðar. 

Í dag eru hátt í 17.000 þúsund einstaklingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein og þeim fer hratt fjölgandi. Þessi jákvæða þróun hefur í þó för með sér ört vaxandi þörf fyrir þjónustu og stuðning við þá sem hafa greinst og aðstandendur þeirra, bæði meðan á veikindum stendur og þegar þau eru yfirstaðin.

Þess vegna þurfum við að halda baráttunni áfram, við getum gert enn betur. Í sameiningu getum við dregið úr fjölda krabbameinstilvika, fækkað dauðsföllum af völdum krabbameina og bætt lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. 

Fjárhagslegur stuðningur almennings og fyrirtækja er grundvöllur þess að Krabbameinsfélagið geti starfað. 

Vissir þú að...?

 • Með öflugri fræðslu og forvörnum vinnur Krabbameinsfélagið að því markmiði að fækka krabbameinstilfellum. Vitað er að hægt er að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum.
 • Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur á sjö árum úthlutað alls 455,5 milljónum króna til íslenskra rannsókna á orsökum, forvörnum, meðferð og lífsgæðum?
 • Að ráðgjafar okkar veittu ráðgjöf, stuðning og upplýsingar með viðtölum, símtölum eða tölvupóstum að meðaltali 6.115 sinnum árlega á árunum 2018-2021?
 • Krabbameinsfélagið á átta íbúðir fyrir fólk af landsbyggðinni sem þarf að sækja læknisþjónustu til Reykjavíkur? 
 • Krabbameinsfélagið styrkir framfaraverkefni eins og þróun rafrænnar samskiptalausnar fyrir sjúklinga í krabbameinsmeðferð á Landspítala.
 • Svæðafélög og stuðningshópar Krabbameinsfélagsins eru 27.
 • Viðtöl við hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa  hjá Krabbameinsfélaginu eru án endurgjalds fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Bleika slaufan í yfir 20 ár

Fyrsta árvekniátakið undir nafni Bleiku slaufunnar hér á landi var í október árið 2000. Þá var það á vegum Krabbameinsfélagsins í samvinnu við Samhjálp kvenna en að frumkvæði heildverslunarinnar Artica, umboðsaðila Estée Lauder. Tæpum áratug áður hafði þetta bandaríska snyrtivörufyrirtæki farið að notað bleika slaufu sem tákn í baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Fyrstu árin var bleikri tauslaufu dreift og tekið við framlögum til stuðnings baráttunni.

Síðan 2007 hafa verið seldar sérhannaðar slaufur til styrktar átakinu.

Bleika slaufan er alþjóðlegt tákn brjóstakrabbameins en frá árinu 2010 hefur athyglin beinst að öllum krabbameinum hjá konum hér á landi. Farið var að lýsa mannvirki í bleikum lit hér á landi í október 2001. Fjöldi fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga hafa tekið þátt í árvekniátaki Bleiku slaufunnar og sýnt þannig stuðning við baráttuna gegn krabbameinum hjá konum. Sá stuðningur verður aldrei metinn til fjár og er ómetanlegur fyrir félagið og alla þá sem takast á við krabbamein í sínu lífi.