Um átakið

Bleika slaufan, átaksverkefni Krabbameinsfélagsins gegn krabbameinum í konum, er tileinkað brjóstakrabbameini í ár.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein íslenskra kvenna og greinist kona með brjóstakrabbamein á um 40 klukkustunda fresti árið um kring. Margt jákvætt hefur áunnist og geta nú 90% kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein vænst þess að lifa lengur en 5 ár sem er mjög góður árangur á heimsvísu. Við fögnum því að um 3.000 konur eru á lífi í dag sem greinst hafa með brjóstakrabbamein en því miður missum við um 40 konur á ári úr sjúkdómnum.

Mikilvægasta leiðin til að fjölga konum sem lifa sjúkdóminn af er skipuleg leit að brjóstakrabbameini sem býðst öllum konum á Íslandi á aldrinum 40-69 ára. Með röntgenmynd af brjóstum er hægt að finna mein á byrjunarstigi og er slík leit talin lækka dánartíðni um allt að 40% af völdum sjúkdómsins.

Fjáröflun Bleiku slaufunnar í ár rennur til endurnýjunar tækjabúnaðar fyrir brjóstakrabbameinsleit 

Öllu söfnunarfé Bleiku slaufunnar verður varið óskertu til endurnýjunar tækjabúnaðar til skipulegrar leitar að brjóstakrabbameini. Ávinningur af endurnýjuðum tækjabúnaði er margþættur og má þar nefna; 

  • Minni geislun
  • Minni óþægindi við myndatökur
  • Aukið öryggi við greiningar
  • Hagræði vegna lægri bilanatíðni
  • Sparnaður við viðhald tækja.

Einnig er fyrirhugað að taka í notkun nýtt boðunarkerfi vegna brjóstakrabbameinsskoðunar sem talið er að muni fjölga þeim konum sem koma reglulega í skoðun. Hvert tæki kostar að lágmarki 30 miljónir króna.

Nú þegar hafa safnast um 5,2 milljónir króna til verkefnisins en öll áheit sem söfnuðust í Reykjavíkurmaraþoninu renna til tækjakaupanna. Að auki söfnuðu bændur, dreifingaraðilar og framleiðendur heyrúlluplasts 900 þúsund krónum með sölu á bleiku heyrúlluplasti sem einnig gengur til verkefnisins.

Um leið og við þökkum þann víðtæka stuðning og hlýhug sem félagið fær í öllum sínum verkefnum þá óskum við eftir stuðningi almennings og fyrirtækja við fjáröflunarverkefni Bleiku slaufunnar í ár.

Saga Bleiku slaufunnar

Fyrsta árveknisátakið undir nafni bleiku slaufunnar hér á landi var í október 2000 á vegum Krabbameinsfélagsins og í samvinnu við Samhjálp kvenna en að frumkvæði heildverslunarinnar Artica, umboðsaðila Estée Lauder. Tæpum áratug áður hafði þetta bandaríska snyrtivörufyrirtæki farið að notað bleika slaufu sem tákn í baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Fyrstu árin var dreift bleikri tauslaufu og tekið við framlögum til stuðnings baráttunni. 

 Síðan 2007 hafa verið seldar sérhannaðar slaufur til styrktar átakinu og segja má að íslenska slaufan sé 10 ára í ár. Hér að neðan er hægt að sjá myndir og sögu slaufunnar frá 2007.  

Bleika slaufan er alþjóðlegt tákn brjóstakrabbameins en á árunum 2010 til 2015 beindist athyglin að öllum krabbameinum hjá konum hér á landi. Farið var að lýsa mannvirki í bleikum lit hér á landi í október 2001. Þá hefur Hreyfill stutt átakið frá 2007 og skipti út hinu hefðbundna gula taxaljósi í bleikt ljós. Fjöldi annarra fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklega hafa tekið þátt í árvekniátaki bleiku slaufuna og sýnt þannig stuðning við baráttuna gegn krabbameinum hjá konum.  Í október er hefð fyrir því að auka vitund um brjóstakrabbamein ásamt því að stuðla að framförum í greiningu og meðferð.

Allarbleikar