Bleika slaufan 2023


Bleika slaufan í ár hönnuð af gullsmíðameisturunum Lovísu Halldórsdóttur Olesen og Unni Eir Björnsdóttur.

Hönnuðir slaufunnar í ár eru gullsmíðameistararnir Lovísa Halldórsdóttir Olesen (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR eftir Unni Eir). Hönnun slaufunnar er innblásin af samstöðu og minnir okkur á að þótt við séum öll ólík þá stöndum við saman þegar erfiðleikar steðja að og myndum eina heild.

„Steinarnir í slaufunni eru ólíkir að forminu til og tákna þannig margbreytileika okkar og heild þeirra táknar þéttan stuðning samfélagsins. Sterkur bleikur litur einkennir slaufuna í ár, en hann minnir á
samstöðuna sem er fólgin í því þegar samfélagið skrýðist bleikum búning til að styðja við baráttuna gegn krabbameinum hjá konum".

Samstarf þeirra Lovísu og Unnar Eirar er táknrænt fyrir inntak átaksins í ár, en þær kynntust árið 2003 í námi og hafa verið vinkonur síðan. „Við leggjum okkar hugmyndir á borðið í sitthvoru lagi og tvinnum svo saman. Það er auðvitað tvennt ólíkt að starfa sjálfstætt og að starfa með öðrum hönnuði, en það fylgir því ákveðin öryggistilfinning að vinna saman að einhverju. Við þekkjumst svo vel að við látum bara allt flakka, en við byggjum hvor aðra upp.“

Myndband um gerð Bleiku slaufunnar  

 

https://www.youtube.com/watch?v=V1-mWWB3MCI

„Þegar við tvær komum saman þá erum við eitthvað svo samstíga og flæðið verður svo þægilegt,“ segir Unnur Eir. 

Bleikaslaufan_Clean_SamanUndanfarin ár hafa verið gerðar tvær útgáfur af Bleiku slaufunni; almenna slaufan sem í ár er næla og Sparislaufan sem er hálsmen úr gullhúðuðu silfri með bleikum zirkon steinum. 

Sparislaufan 

Sparislaufan kemur í takmörkuðu upplagi. Þar hefur verið nostrað við hvert smáatriði til að tryggja fágað yfirbragð.. Slaufan sjálf er úr 18k gullhúðuðu 925 silfri og bleikir zirkon steinar í ólíkum formum klæða hana í sparibúning. Slaufan er þrædd upp á gullhúðaða keðju sem er demantsskorin til að það stirni fallega á hana. Hönnuðir slaufunnar pakka hverri slaufu í dökkbleikan kassa og handhnýta svartan borða utan um kassann. 

 

Verum bleik – fyrir okkur öll. Kaupum Bleiku slaufuna

Bleika slaufan verður í sölu frá 29. september til 23. október í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins, í Mebu skartgripaverslun í Kringlunni og Smáralind og í verslun by lovisa að Vinastræti 16 í Garðabæ og hjá hátt í 400 söluaðilum um land allt. 

Allur ágóði af sölu Bleiku slaufunnar rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins. Starfsemi félagsins byggir á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og er Bleika slaufan eru ein af lykilstoðunum í starfsemi félagsins.

Með stuðningi þínum gerir þú félaginu kleift að:

  • styðja fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra með ókeypis ráðgjöf hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa.
  • styrkja íslenskar krabbameinsrannsóknir sem snúa meðal annars að orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.
  • sinna ýmiss konar fræðslu, forvarnarstarfi, námskeiðshaldi og fleiru sem miðar að því að draga úr líkum á krabbameinum og bæta líf fólks með krabbamein.
  • sinna hagsmunagæslu og beita sér fyrir bættri aðstöðu fyrir fólk með krabbamein.

Kynntu þér starfsemi Krabbameinsfélagsins nánar á vefsíðu félagsins og í ársskýrslu félagsins þar sem farið er ítarlega yfir starfsemi ársins.

Hér má einnig sjá 70 ára tímalínu yfir starfsemi félagsins.