• Slaufan 2019

Um átakið

Bleika slaufan er árlegt átaksverkefni Krabbameins­félagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. 

Söfnunarfé Bleiku slaufunnar stendur undir stórum hluta af þeirri fjölbreyttu starfsemi sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir án endurgjalds, svo sem ráðgjöf, stuðningur, námskeið, fræðsla, forvarnastarfsemi, hagsmunagæsla og rannsóknir.

Þegar þú kaupir Bleiku slaufuna leggur þú þitt af mörkum fyrir þær tæplega 800 konur sem greinast með krabbamein ár hvert, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt.

Mundu að þú ert ekki ein

Yfirskrift átaksins í ár er “Mundu að þú ert ekki ein”. Í fyrra lögðum við áherslu á mikilvægi þess að mæta í krabbameinsleit og hvöttum vinkonur til að minna hverja aðra á. Í ár stígum við skrefi lengra og leggjum áherslu á mikilvægi þess að engin kona upplifi sig eina í veikindum.

Með átakinu minnum við á að þú stendur ekki ein. Við hjá Krabbameinsfélaginu leggjum okkur fram um að hlusta og liðsinna þér sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendum. Við bjóðum fræðslu og faglegan stuðning hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa, sálfræðings og kynfræðings, námskeið og fyrirlestra, leiðbeinum varðandi réttindamál og þjónustu og höfum milligöngu um jafningjastuðning ef þú vilt tala við einhvern sem er, eða hefur verið, í sömu stöðu og þú. Mundu að þú ert ekki ein.

Með átakinu viljum við einnig heiðra þær fjölmörgu fjölskyldur, vinkonur og aðrar þær eða þá sem standa við bakið á þeim tæplega 800 konum sem greinast með krabbamein á Íslandi ár hvert. Að vera til staðar, að ljá eyra og öxl til að hvíla á skiptir máli. Það getur líka tekið á og þú getur leitað ráða og stuðnings hjá okkur. Mundu að þú ert ekki ein.

Með því að kaupa og bera Bleiku slaufuna sýnir þú stuðning í verki og dreifir boðskapnum. Mundu að þú ert ekki ein.

Hvers vegna?

Einn af hverjum þremur Íslendingum má búast við að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Sífellt betur tekst að greina krabbamein tímanlega, ráða niðurlögum þeirra og halda sjúkdómunum í skefjum. Nú er svo komið að um 72% þeirra sem greinast með krabbamein eru á lífi fimm árum síðar. Í dag eru rúmlega 15.000 þúsund einstaklingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein og þeim fer hratt fjölgandi. Þessi jákvæða þróun hefur í för með sér ört vaxandi þörf fyrir þjónustu og stuðning við þá sem hafa greinst og aðstandendur þeirra, bæði meðan á veikindum stendur og þegar þau eru yfirstaðin.

Með kaupum á Bleiku slaufunni leggur þú þitt af mörkum til málefnisins.

Fjárhagslegur stuðningur almennings og fyrirtækja er grundvöllur þess að Krabbameinsfélagið geti starfað. Í sameiningu getum við haldið áfram að enn betri árangri varðandi það að draga úr fjölda krabbameinstilvika, fækka dauðsföllum af völdum krabbameina og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Framlag þitt er forsenda þess að árangur náist.

Vissir þú að...?

Guðbjörg hjá AURUM er hönnuður slaufunnar 2019

Bleika slaufan 2019 er hönnuð af Guðbjörgu Kristínu Ingvarsdóttur , skartgripa­hönnuði í AURUM Bankastræti.

AURUM by Guðbjörg hefur fest sig í sessi sem eitt glæsilegasta hönnunarmerki landsins og fagnar 20 ára afmæli í ár.

Bleika slaufan 2019 verður afhjúpuð 1. október þegar sala hefst í vefverslun Krabbameinsfélagsins og hjá söluaðilum um land allt.

Bleika slaufan í 20 ár

Fyrsta árvekniátakið undir nafni Bleiku slaufunnar hér á landi var í október 2000. Þá var það á vegum Krabbameinsfélagsins í samvinnu við Samhjálp kvenna en að frumkvæði heildverslunarinnar Artica, umboðsaðila Estée Lauder. Tæpum áratug áður hafði þetta bandaríska snyrtivörufyrirtæki farið að notað bleika slaufu sem tákn í baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Fyrstu árin var bleikri tauslaufu dreift og tekið við framlögum til stuðnings baráttunni.

Síðan 2007 hafa verið seldar sérhannaðar slaufur til styrktar átakinu.

Bleika slaufan er alþjóðlegt tákn brjóstakrabbameins en frá árinu 2010 hefur athyglin beinst að öllum krabbameinum hjá konum hér á landi. Farið var að lýsa mannvirki í bleikum lit hér á landi í október 2001. Þá hefur Hreyfill stutt átakið frá 2007 og skipti út hinu hefðbundna gula taxaljósi í bleikt ljós. Fjöldi annarra fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga hafa tekið þátt í árvekniátaki Bleiku slaufunnar og sýnt þannig stuðning við baráttuna gegn krabbameinum hjá konum.