Birna Þórisdóttir 23. september 2020

"Að þessu sinni horfum við til þess árangurs sem hefur náðst"

Halla Þorvaldsdóttir og Laufey Tryggvadóttir ræddu bleiku slaufuna og krabbameinsrannsóknir í Mannlega þættinum 22. september.

Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins og Laufey Tryggvadóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins ræddu við Gunnar Hansson í Mannlega þættinum 22. september um Bleiku slaufuna sem fer í sölu 1. október og þann árangur sem hefur náðst fyrir tilstilli krabbameinsrannsókna, þeim sem greinast með krabbamein til góðs. Krabbameinsfélagið er í miklu erlendu rannsóknasamstarfi, bæði fjölþjóðlegu og norrænu, sem meðal annars hefur sýnt fram á að Ísland stendur vel að vígi hvað varðar horfur þeirra sem greinast með krabbamein. 

Októbermánuður ár hvert er helgaður þeim 800 konum sem greinast með krabbamein á ári og einnig þeim 8000 konum sem eru á lífi hér á landi sem hafa greinst með krabbamein. Í ár er mánuðurinn tileinkaður krabbameinsrannsóknum.

Krabbameinsfélagð hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á rannsóknir. Nú styrkir Krabbameinsfélagið bæði rannsóknir innan félagsins og utan þess, m.a. í gegnum Vísindasjóð. Þær Halla og Laufey fara í viðtalinu um víðan völl og ræða meðal annars um Áttavitann, rannsókn á reynslu þeirra sem greinast með krabbamein, og gæðaskráningu krabbameina sem er unnin í samstarfi við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri. 

Einnig segir Laufey frá því að snemma hóf félagið að rannsaka ættgengi brjóstakrabbameins. Vísindamenn hjá Krabbameinsfélaginu tóku virkan þátt í fjölþjóðlegu samstarfi sem leiddi til þess að BRCA2 genið fannst. Það var merkileg uppgötvun því BRCA2 próteinið, sem genið kóðar fyrir, hefur sterk verndandi áhrif gegn krabbameinum. Ef það eru gallar í BRCA genum (svokallaðar stökkbreytingar) þá er mikið aukin áhætta á krabbameinum, einkum í brjóstum, eggjastokkum og fleiri líffærum sem svara kynhormónum. Mikilvægt framlag Íslands í uppgötvun BRCA2 gensins byggði meðal annars á Krabbameinsskrá og ættarskrá Krabbameinsfélagsins, auk frábærrar vinnu sameindaerfðafræðinga hjá Landspítala og Krabbameinsfélaginu.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.