Hefur þú þörf fyrir stuðning og spjall?

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern nákominn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. 

Sorgarferli aðstandenda byrjar oft löngu áður en manneskjan deyr þegar um alvarlega sjúkdóma hefur verið að ræða. Í gegnum veikindin gætir þú hafað upplifað sorg í tengslum við breytingar sem urðu á sambandi ykkar og breytingum sem urðu á ástvini þínum.

Hugsanir og tilfinningar sem að sækja á þig geta verið mismunandi frá einum tíma til annars. Stundum geta tilfinningarnar orðið mjög yfirþyrmandi og lamandi en á öðrum tímum eru þær ekki eins yfirráðandi og þú átt auðveldara með að taka þátt í daglegu lífi. 

Sorginni hefur oft verið líkt við öldudal þar sem stundum flæðir að og fólki finnst það varla ná andanum. En svo koma dagar þar sem flæðir aftur frá og líðanin er betri, að minnsta kosti um stund. 

Þótt að missirinn og ástvinurinn þinn verði sennilega alltaf hluti af þér, segja flestir að með tímanum verði þær erfiðu tilfinningar sem að tengjast sorginni ekki eins yfirráðandi. Oftast nær fólk með tímanum að aðlagast breyttri tilveru og að upplifa á nýjan leik jákvæðar tilfinningar. Það er hins vegar mjög misjafnt hversu langur tími líður þar til að fólki fer að líða betur og ýmsir þættir sem geta spilað þar inn í. 

Krabbameinsfélagið býður upp á einstaklingsviðtöl til stuðnings þeim sem hafa misst ástvin úr krabbameini. Pantaðu tíma hjá ráðgjafa í síma 800-4040 eða á netfanginu radgjof@radgjöf.is

Kynntu þér fræðsluefnið ,,Að takast á við sorg".