Lífsstíll og brjóstakrabbamein

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið hjá íslenskum konum og hafa lífshorfur batnað verulega undanfarin ár. Á hverju ári greinast að meðaltali um 260 konur með brjóstakrabbamein. Brjóstakrabbamein er eitt fárra krabbameina sem skimað er fyrir með skipulagðri hópleit. Einnig er mikilvægt að skoða sjálf brjóstin. Hér eru leiðbeiningar um sjálfsskoðun brjósta .

Samkvæmt skýrslu frá Alþjóðakrabbameinsrannsóknarsjóðnum sem byggir á yfirferð fjölda rannsókna þá eru nokkrir lífsstílsþættir sem geta haft áhrif á líkurnar á myndun brjóstakrabbameins. Staðfest tengsl milli lífsstílssþátta er skipt eftir því hvort meinið greinist fyrir eða eftir tíðahvörf. Einnig er í sömu skýrslu farið yfir rannsóknir þar sem rannsakað er hvort lífsstíllinn geti haft áhrif á horfur eftir greiningu á brjóstakrabbameini (sjá upptalningu á lífstílssþáttum neðst á síðunni).

Ekki er mælt með notkun fæðubótarefna til að minnka líkur á krabbameini. Eina fæðubótarefnið sem mælt er með að taka á Íslandi er D-vítamín, annað hvort með lýsi, lýsispillum eða D-vítamíntöflum.

Brjóstakrabbamein greint fyrir tíðahvörf

Rannsóknir hafa staðfest að ákveðnir lífsstílsþættir (þ.e. hvernig við borðum og hreyfum okkur) hafa áhrif á líkurnar á að greinast með brjóstakrabbamein fyrir tíðahvörf.

Þessir lífsstílsþættir eru:

  • Regluleg hreyfing af mikilli ákefð (t.d. hlaup og hjólreiðar) minnkar líkur

  • Brjóstagjöf minnkar líkur hjá móður

  • Áfengisneysla eykur líkur

Einnig eru vísbendingar um að eftirtaldir lífsstílsþættir get haft áhrif: 

  • Mikil neysla á grænmeti (hér eru kartöflur ekki taldar með) virðist minnka líkur á brjóstakrabbameini af tegund sem er án estrógenviðtaka

  • Mikil neysla á karótínóíðum (andoxunarefni sem finnast að miklu leyti í grænmeti) virðist minnka líkur

  • Neysla á mjólkurvörum virðist minnka líkur

  • Mikil kalkneysla virðist minnka líkur

  • Hreyfing af hvað tagi virðist minnka líkur

Brjóstakrabbamein greint eftir tíðahvörf

Rannsóknir hafa staðfest að ákveðnir lífsstílsþættir (þ.e. hvernig við borðum og hreyfum okkur) hafa áhrif á líkurnar á að greinast með brjóstakrabbamein eftir tíðahvörf.

Þessir lífsstílsþættir eru:

  • Regluleg hreyfing (miðlungs og mikil ákefð) minnkar líkur

  • Brjóstagjöf minnkar líkur hjá móður

  • Há líkamsþyngd á fullorðinsárum eykur líkur

  • Mikil þyngdaraukning á fullorðinsárum eykur líkur

  • Áfengisneysla eykur líkur

Einnig eru vísbendingar um að eftirtaldir lífsstílsþættir get haft áhrif: 

  • Mikil neysla á grænmeti (hér eru kartöflur ekki taldar með) virðist minnka líkur á brjóstakarabbameini af tegund sem er án estrógenviðtaka

  • Mikil neysla á karótínóíðum (andoxunarefni sem finnast að miklu leyti í grænmeti) virðist minnka líkur

  • Mikil kalkneysla virðist minnka líkur

Aðrir þættir sem tengjast brjóstakrabbameini

Hæð og þyngd

Brjóstavefurinn breytist stöðugt í gegnum ævina og því geta áhættuþættir breyst eftir því hvenær við erum útsett fyrir þeim á æviskeiðinu. Þannig hafa rannsóknir sýnt að hærri líkamsþyngdarstuðull (þyngd deilt með hæð í öðru veldi) á unglingsárum og snemma á fullorðinsárum verndi gegn brjóstakrabbameini en aftur á móti eykur hærri líkamsþyngdarstuðull á fullorðinsárum áhættuna á brjóstakrabbameini greint eftir tíðahvörf. Algengara er að konur greinist með krabbamein í brjóstum að loknum tíðahvörfum.

Embætti landlæknis gefur ráðleggingar um mataræði, hreyfingu og svefn sem gott er að styðjast við til að stuðla að hæfilegri líkamsþyngd.

Meðan við erum að vaxa  þá geta hormón sem tengjast vextinum og til dæmis vaxtarhraðanum haft áhrif á krabbameinsáhættuna síðar meir í lífinu. Þannig er staðfest að það að vera hávaxin á fullorðinsárum eykur líkur á brjóstakrabbameini.

Tíðahringur og frjósemi

Því fleiri tíðahringi sem konur upplifa á ævinni, því meiri er áhættan á brjóstakrabbameini. Þannig auka eftirfarandi þættir líkurnar:

  • Að byrja á blæðingum fyrir 12 ára aldur

  • Að fara seint í tíðahvörf (eftir 55 ára aldur)

  • Að verða ekki barnshafandi eða ekki fyrr en  eftir 30 ára aldur

Ofangreindir þættir eru verndandi sé þeim öfugt farið þ.e. að byrja seint á blæðingum, fara snemma í tíðahvörf og verða barnshafandi fyrir þrítugt.

Einnig gildir að ef konur taka estrógen með eða án prógesteróns þá eykst áhættan á brjóstakrabbameini. Notkun tíðahvarfahormóna ætti því að takmarka eins og hægt er og mikilvægt að ráðfæra sig við lækni um notkun slíkra lyfja.

Ættarsaga

Ættarsaga um brjóstakrabbamein eykur líkur á meininu hjá afkomendum. Konur sem eiga fyrstu gráðu ættingja (foreldrar/systkini) sem hefur greinst með brjóstakrabbamein eru í tvöfalt meiri áhættu á að greinast með brjóstakrabbamein borið saman við  konur sem ekki eiga fyrstu gráðu ættingja sem hafa greinst með meinið. Einnig aukast líkur á brjóstakrabbameini meðal þeirra sem eru með arfgenga stökkbreyting á BRCA1, BRCA2 og p53 geninu.

Mataræði og hreyfing eftir greiningu á brjóstakrabbameini

Rannsóknir hafa gefið vísbendingar um að ákveðnir lífsstílsþættir (þ.e. hvernig við borðum og hreyfum okkur) virðist hafa jákvæð áhrif á horfur kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein.

Þessir lífsstílsþættir eru:

  • Að vera í hæfilegri líkamsþyngd

  • Að hreyfa sig reglulega

  • Að borða matvæli sem innihalda trefjar (t.d. heilkornavörur, ávextir og grænmeti)

  • Að borða matvæli sem innihalda soja

  • Að forðast fiturík matvæli og þá sérstaklega mettaða fitu