Ása Sigríður Þórisdóttir 11. október 2023

Slökkti fyrst eld og keypti svo Bleiku slaufuna

 Nágranni Krabbameinsfélagsins, Bergrún Ingimarsdóttir, varð fyrst til að tryggja sér slaufu ársins. Það mátti þó litlu muna að það tækist ekki vegna elds sem hún þurfti að ráða niðurlögum að.

„Ég hefði viljað koma á opnunarviðburðinn, en komst því miður ekki,“ segir Bergrún. „Ég ætlaði alls ekki að missa af því að verða mér úti um Sparislaufuna í ár og sat því með símann í höndunum og beið eftir því að slaufan kæmi í sölu. Ég var byrjuð að panta þegar ég fann plastbrunalykt og varð litið út um gluggann. Þrjár ruslatunnur stóðu í ljósum logum fyrir utan heima hjá mér.“ Bergrún hljóp út með slökkvitæki og tók þátt í því að ráða niðurlögum eldsins. Síðan fór hún aftur inn í íbúðina sína og kláraði að ganga frá kaupunum í vefverslun Krabbameinsfélagsins.

Segir skimun hafa bjargað lífi sínu

Bergrún greindist með frumubreytingar í leghálsi 29 ára og fór í keiluskurð stuttu síðar. Hún telur aðgengi að skimunum hafa bjargað lífi sínu og upplifir mikla tengingu við Bleiku slaufuna og bleikan október æ síðan. „Ég fór í keiluskurð rúmlega þrítug og eignaðist svo tvö börn til viðbótar við þau þrjú sem ég átti fyrir. Í dag er ég fimm barna móðir og á sex barnabörn og fæ notið alls þess sem því fylgir vegna þess að mér bauðst skimun.“ Bergrún hvetur alla til að þiggja þær skimanir sem eru í boði. Við hjá Krabbameinsfélaginu tökum svo sannarlega undir með Bergrúnu að þátttaka í skimunum skiptir máli.

Fyrsta Bleika slaufan á skírnartertunni

Það er auðheyrt að Bergrún er mikil fjölskyldukona og hún hefur haft þann siðinn á að halda vöfflukaffi í byrjun október og mars og afhenda slaufur og mottumarssokka til sinna nánustu. Bergrún á líka dótturdóttir sem er fædd 4. október og fyrsta Bleika slaufan hennar var á skírnartertunni. Árið í ár er engin undantekning, en Bergrún er þegar búin að festa kaup á einni fyrir manninn sinn og einni fyrir dótturdótturina. Bergrún segist gjarnan vilja að fleiri kynni sér úrvalið í vefverslun Krabbameinsfélagsins og nýtir sjálf hvert tækifæri til að styrkja Krabbameinsfélagið.

Bergrún var leyst út með þakklætisvotti og hjartans þökkum frá Krabbameinsfélaginu.

Takk fyrir stuðninginn í gegnum tíðina, kæra Bergrún!