Ása Sigríður Þórisdóttir 9. október 2023

Krabbameinsfélagið bjargaði lífi mínu, geðheilsu, starfsgetu og lífsgæðum

Árið 2019 var ár mikilli breytinga hjá Erlu Sigrúnu Einarsdóttur, en hún fór í skurðaðgerð og geislameðferð við brjóstakrabbameini, gekk í gegnum skilnað og var samhliða því að skrifa lokaritgerð í kennaranámi. Skömmu seinna þyrmdi yfir hana og það var þá sem hún upplifði loksins rými til að horfast í augu við áhrifin af krabbameinsgreiningunni.

Þegar Erla Sigrún Einarsdóttir greindist með brjóstakrabbamein árið 2018 var hún á fullu í kennaranámi og starfaði jafnframt sem kennari við grunnskólann á Egilsstöðum. Árið 2019 var ár mikilla breytinga hjá henni, en hún fór í skurðaðgerð og geislameðferð, gekk í gegnum skilnað og var samhliða því að skrifa lokaritgerð í kennaranámi. Skömmu seinna þyrmdi yfir hana og það var þá sem hún upplifði loksins rými til að horfast í augu við áhrifin af krabbameinsgreiningunni. Í dag felst hennar huglæga endurhæfing í því að prjóna Bleiku slaufuna til styrktar Krabbameinsfélaginu.

Stór pakki á skömmum tíma

Erla Sigrún Einarsdóttir er fædd í október 1964 og uppalin á Egilsstöðum. „Ég fór seint í nám og var að klára kennaranám þegar ég greindist árið 2018,“ segir Erla Sigrún. „Ég var í miðri æfingarkennslu og í samráði við lækni ákvað ég að klára hana fyrst og fara svo í aðgerð. Þá átti ég bara ritgerðina eftir.“ Það varð úr að Erla Sigrún fór í skurðaðgerð snemma árs 2019 og svo í geislameðferð. Hjónaband hennar þoldi ekki álagið af veikindunum og um haustið 2019 var hún því í vinnu við að kenna, að jafna sig á krabbameinsmeðferðunum, að ganga í gegnum skilnað og að skrifa lokaritgerð. „Þetta var stór pakki sem ég var að ganga í gegnum á skömmum tíma.“

Erla Sigrún ákvað að skipta um umhverfi og flutti til Flateyrar um haustið 2020. „Ég kannaðist við skólastjórann, en aðra þekkti ég ekki. Ég var bara ég, án allrar forsögu nema þeirrar sem ég vildi sjálf deila. Þetta var á covid-tíma, þannig að það voru litlar kröfur um félagsleg tengsl utan vinnunnar. Ég fékk því nægan tíma út af fyrir mig til að jafna mig og hugsa. Ég upplifði mig svona eins og í fjallakofa og þetta var einmitt það sem ég þurfti á að halda á þessum tímapunkti.“

Algjört þrot þremur árum eftir greininguna

Að dvölinni á Flateyri lokinni flutti Erla Sigrún aftur til Egilsstaða og tók við kennarastöðu við Egilsstaðaskóla, en það var þá sem áfallið dundi yfir, þremur árum eftir að hún greindist með krabbameinið. „Ég kenndi fram að áramótum og þá hrundi allt yfir mig,“ segir Erla Sigrún. „Ég vissi ekki hvað var að gerast fyrir mig, ég fór einhvern veginn í algjört þrot. Heimilislæknirinn minn sendi mig í veikindaleyfi fram á haustið.“

Erla Sigrún leitaði til Krabbameinsfélagsins, sem hún segir hafa verið það sem bjargaði henni. „Að hafa ratað í ráðgjöf til Krabbameinsfélagsins bjargaði lífi mínu, geðheilsu, starfsgetu og lífsgæðum,“ segir Erla Sigrún. „Ég fékk ráðgjafa og byrjaði að hitta sálfræðing og ég gerði allt sem þau ráðlögðu mér. Ég lagði líf mitt í hendurnar á þeim, alveg eins og ég lagði líf mitt í hendurnar á skurðlækninum. Ég var að leita ráða hjá þeim af því að ég bjó ekki yfir þessari þekkingu. Þau eru fagfólk og vita hvað þau eru að segja. Ég ákvað að ef ég ætlaði að fá bata þá þyrfti ég bara að gera eins og mér væri ráðlagt.“

Þakklát fyrir baklandið

Erla Sigrún sótti líka námskeið í sjálfskærleik á vegum Krabbameinsfélagsins og segir það hafa hjálpað henni mikið við að horfast í augu við áfallið. „Það var þá sem ég byrjaði að horfast í augu við að ég hefði í alvörunni fengið krabbamein. Það var þá sem ég fór að takast á við óttann og óöryggið, þótt ég væri komin á þennan stað. Það voru tilfinningarnar sem blossuðu upp fyrst af því ég hafði ekki haft svigrúm til að takast á við þær fyrr en þarna.“ Í dag starfar Erla Sigrún sem kennari í 85% starfshlutfalli. „Trúnaðarlæknirinn hjá sveitarfélaginu vildi að ég færi hægar í sakirnar, en ég var staðráðin í að láta á þetta reyna. Ég upplifi mig fulla af orku, af því að ég gerði það sem mér var sagt að gera.“

Þema Bleiku slaufunnar í ár er samstaða og Erla Sigrún undirstrikar að þótt hjónabandið hafi ekki þolað álagið hafi hennar nánustu staðið þétt við bakið á henni. „Ég á mjög marga góða að og mínir nánustu sýndu það og sönnuðu að ég var svo sannarlega ekki ein í þessu stóra verkefni,“ segir Erla Sigrún. „Tengslin við son minn og tengdadóttur styrktust gríðarlega mikið og þau voru eiginlega með mig í hálfgerðri sálgæslu. Eins hafði ég góðan stuðning frá foreldrum mínum, bróður og mágkonu og fjölskyldunni allri, sem ég er innilega þakklát fyrir. Auk þess á ég gríðarlega sterkan vinkonuhóp sem stóð með mér og þær stöppuðu í mig stálinu og leiddu mig áfram þegar ég var við það að villast og gefast upp“.

Prjónar til að gefa til baka

Á Styrkleikunum á Egilsstöðum í lok sumars vakti Erla Sigrún mikla athygli vegna prjónapeysu með einstöku mynstri, en hún er vön prjónakona og lærði að prjóna án þess að styðjast við uppskriftir. „Þegar ég var að læra að prjóna sem unglingur þá gat ég ekki prjónað eftir uppskrift og fyrst um sinn prjónaði ég allt upp úr mér. Svo fór ég að æfa mig í að prjóna eftir uppskrift, en yfirleitt breyti ég öllum mynstrum sem ég prjóna, svo það er alltaf einhver smá uppspuni.“

„Þegar ég var í veikindaleyfinu og allri sjálfsvinnunni þá settist ég niður og byrjaði að prjóna Bleiku slaufuna,“ segir Erla Sigrún. „Það gerði mér svo gott að telja út mynstrið, teikna það, reikna og prjóna. Þetta var eiginlega huglæg endurhæfing.“ Upphaflega prjónaði Erla Sigrún tvær peysur handa sér og vinkonu sinni, sem hún segir hafa staðið við bakið á sér eins og klett í gegnum erfiðleikana. Í kjölfarið fékk Erla Sigrún þá hugdettu að prjóna til styrktar Krabbameinsfélaginu og gefa þannig til baka.

„Síðasta sumar skrifaði ég uppskriftina upp í nokkrum stærðum. Ég hugsaði með mér að ef Krabbameinsfélagið gæti hugsað sér að nota þetta með einhverjum hætti þá vildi ég styrkja félagið. Ég hef ekki verið að selja uppskriftina sjálf, en það er í boði að kaupa hana og ágóðinn rennur til Krabbameinsfélagsins.“ Fyrir Styrkleikana prjónaði Erla Sigrún ásamt vinkonum sínum nokkrar peysur og bauð til sölu. „Það var svo gott veður að það var eitthvað lítið sem seldist, en ég sendi þær allar suður. Stefnan er að Krabbameinsfélagið bjóði þær til sölu í vefversluninni sinni og þá til styrktar félaginu.“

386767227_23940678908910462_248876854064552263_nMynd: Signý Sigurvinsdóttir og Guðmundur Pálsson hjá Krabbameinsfélaginu klæðast peysunum