Ása Sigríður Þórisdóttir 9. október 2023

For­varnir og á­hættu­þættir brjósta­krabba­meina – þekktu þína á­hættu­þætti

Grein birtist í Skoðun á Visir.is 5. október 2023.

Það er komin hefð fyrir að október mánuður sé tileinkaður baráttunni gegn krabbameinum kvenna, með Bleiku slaufunni árvekni- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélagsins.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna á Íslandi sem og á heimsvísu. Óhætt er að segja að oft hafi verið þörf að vekja athygli á brjóstakrabbameinum og nú er það nauðsyn. Nýgengi brjóstakrabbameins, þ.e. hversu margar konur greinast af hverjum 100.000 konum, hefur aldrei verið hærra hér á landi, sem virðist því miður einnig vera hæsta nýgengi brjóstakrabbameins á Norðurlöndunum. Þrátt fyrir að dánartíðni af völdum þessa meins hafi vissulega farið lækkandi hér á landi undanfarin ár og áratugi, þá er hún engu að síður næsthæst hér á landi borið saman við Norðurlöndin. Að meðaltali greindust um 260 konur á ári á Íslandi með brjóstakrabbamein árin 2018-2022 og á sama tímabili létust að meðaltali 49 konur árlega af þess völdum. Brýnt er að lækka nýgengi og dánartíðni enn frekar. Þar eru öflugar forvarnir mikilvægasta vopnið.