„Þakklát þeim sem tóku utan um mig“

Saga Gretu Önundardóttir

  • Gréta

„Það var í febrúar sem ég fann meinið í brjóstinu. Ég fékk áfall.  Nú væri kannski ekki svo mikið eftir af lífinu. Ég sem hélt alltaf að ég væri svo ábyggileg að fara í skoðanir og skoða sjálf. En ég hafði gleymt mér um tíma.“

Greta fékk strax tíma hjá lækni og er afar ánægð með þjónustu Landspítalans: „Strax við fyrsta viðtal hjá skurðlækninum, þegar ferlið hófst hjá hinu frábæra brjóstateymi LSH, fór ég að sjá að ég ætti ennþá framtíð!  Ég áttaði mig á hve heppin ég var að meinið fannst svona snemma og að það var skurðtækt. Ég þurfti hvorki lyf né geisla og allt í einu varð allur gróður grænni en hann hafði verið og himinninn blárri. Ég myndi halda lífi.“

Til að byrja með lét Greta aðeins þá nánustu vita af veikindunum, en þegar á leið kvisaðist orðrómurinn út. Greta var nýflutt á Selfoss úr Kópavoginum ásamt manni sínum og hundinum Vini, sem sér til þess að þau fari út að ganga daglega; 

„Þetta átti eftir að skipta mig miklu máli og í nánast hvert sinn sem ég fór út úr húsi fékk ég faðmlag frá einhverjum og falleg orð. Fjölskyldan og nánustu vinir lögðust á eitt að gera lífið skemmtilegt og það er gott að finna að fólkinu í kringum mig þykir vænt um mig. Það fékk ég svo sannarlega að finna.“

Greta er þakklát fyrir hvað allt hefur gengið vel: „Ég er þakklát þeim sem tóku utan um mig, það gaf mér mikinn styrk. Ég er sérstaklega þakklát fólkinu á spítalanum sem sinnti mér alltaf með bros á vör og styrkti mig í þeirri trú að þetta væri bara verkefni sem þyrfti að sinna, ég yrði laus við krabbameinið eftir skurðaðgerð. Betra gat þetta ekki verið.“

Lokaorð Gretu: „Við ykkur hin, bæði konur og karla, vil ég segja; venjið ykkur á að þreifa brjóstin, til dæmis alltaf þegar þið farið í sturtu. Þá verður þetta að vana sem gleymist ekki. Förum alltaf í skoðun þegar kallað er á okkur en stöndum okkur sjálf þess á milli með því að þekkja líkama okkar og finna meinið þegar það er hægt.“ 

Uppfært 16.9.2020.

Allt hefur gengið að óskum hjá Gretu frá því aðgerðin var gerð: „Ég hef engu við þetta að bæta öðru en þakklæti fyrir að fá að vera enn á lífi,“ segir hún.