Fjáröflun Bleiku slaufunnar í ár rennur til endurnýjunar tækjabúnaðar fyrir brjóstakrabbameinsleit

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein íslenskra kvenna og greinist kona með brjóstakrabbamein á um 40 klukkustunda fresti árið um kring. Margt jákvætt hefur áunnist og geta nú 90% kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein vænst þess að lifa lengur en 5 ár sem er mjög góður árangur á heimsvísu. Við fögnum því að um 3.000 konur eru á lífi í dag sem greinst hafa með brjóstakrabbamein en því miður missum við um 40 konur á ári úr sjúkdómnum.

Mikilvægasta leiðin til að fjölga konum sem lifa sjúkdóminn af er skipuleg leit að brjóstakrabbameini sem býðst öllum konum á Íslandi á aldrinum 40-69 ára. Með röntgenmynd af brjóstum er hægt að finna mein á byrjunarstigi og er slík leit talin lækka dánartíðni um allt að 40% af völdum sjúkdómsins.

Öllu söfnunarfé Bleiku slaufunnar verður varið óskertu til endurnýjunar tækjabúnaðar til skipulegrar leitar að brjóstakrabbameini. Ávinningur af endurnýjuðum tækjabúnaði er margþættur og má þar nefna;

  • Minni geislun
  • Minni óþægindi við myndatökur
  • Aukið öryggi við greiningar
  • Hagræði vegna lægri bilanatíðni
  • Sparnaður við viðhald tækja.

Einnig er fyrirhugað að taka í notkun nýtt boðunarkerfi vegna brjóstakrabbameinsskoðunar sem talið er að muni fjölga þeim konum sem koma reglulega í skoðun. Hvert tæki kostar að lágmarki 30 miljónir króna.

Nú þegar hafa safnast um 5,2 milljónir króna til verkefnisins en öll áheit sem söfnuðust í Reykjavíkurmaraþoninu renna til tækjakaupanna. Að auki söfnuðu bændur, dreifingaraðilar og framleiðendur heyrúlluplasts 900 þúsund krónum með sölu á bleiku heyrúlluplasti sem einnig gengur til verkefnisins.

Um leið og við þökkum þann víðtæka stuðning og hlýhug sem félagið fær í öllum sínum verkefnum þá óskum við eftir stuðningi almennings og fyrirtækja við fjáröflunarverkefni Bleiku slaufunnar í ár.

Kveðja,
Starfsfólk Krabbameinsfélagsins