• Slaufan 2018

Bleika slaufan 2018

Söfnunarfé Bleiku slaufunnar 2018 rennur til fjölbreyttrar starfsemi Krabbameinsfélagsins með sérstakri áherslu á krabbamein hjá konum og hvatningu um að mæta í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum.

Í ár er lögð áhersla á þátttöku kvenna í skimun og mikilvægi þess að vinahópar hvetji sínar konur til að mæta í krabbameinsleit auk þess að styðja ef kona greinist með krabbamein. 

Virkjum vináttuna og skráum okkar vinaklúbb.

Krabbameinsfélagið hvetur konur til að skrá sinn vinaklúbb hér og taka höndum saman um að hvetja „sínar konur“ til þátttöku í skimun. Samtakamáttur kvenna getur verið magnaður. Það sýna vinkonuhópar sem halda saman svo áratugum skiptir í gegnum súrt og sætt og veita ómetanlegan stuðning og hvatningu þegar á þarf að halda.

Ljósmyndasýningin BLEIK er hluti af Bleiku slaufunni 2018. Hún byggir á persónulegum sögum 12 kvenna sem greinst hafa með brjósta- eða leghálskrabbamein og farið í meðferð en einnig er fjallað um mikilvægi vinahópa í því ferli. Umfjöllun um sýninguna má sjá hér þar sem sögur kvennanna eru einnig birtar, en hún fer fram á fjórum stöðum á landinu og stendur út októbermánuð. Sýningarstaðir eru Kringlan í Reykjavík, Glerártorg á Akureyri, Krónan á Selfossi og Ráðhús Reykjanesbæjar.

Páll Sveinsson er hönnuður slaufunnar 2018 

Sigurvegari í samkeppni um hönnun Bleiku slaufunnar 2018 er Páll Sveinsson, gullsmíðameistari og verkstæðisformaður hjá Jóni og Óskari.

Bleika slaufan kemur bæði sem næla og silfurhálsmen sem framleitt er í takmörkuðu upplagi. Í ár er einnig hannað eitt gullhálsmen sem verður boðið upp til styrktar Bleiku slaufunni.

Samkeppnin fór nú fram í sjöunda sinn í samstarfi Krabbameinsfélags Íslands og Félags íslenskra gullsmiða. Afar erfitt var að velja úr innsendum slaufum enda allar mjög metnaðarfullar.

Bleika slaufan 2018 táknar umhyggjuna og tárin sem geta fylgt því þegar einhver greinist með krabbamein.

Samstarf Félags íslenskra gullsmiða og Krabbameinsfélagsins hefur verið afar farsælt og við hlökkum til að þróa það áfram. Við þökkum öllum þeim gullsmiðum sem sendu inn tillögur að Bleiku slaufunni í ár.