Bleika slaufan 2017

Söfnunarfé Bleiku slaufunnar 2017 rennur til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, sem veitir ókeypis stuðning, fræðslu og ráðgjöf til krabbameinsgreindra og aðstandenda.

Í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Krabbameinsfélagið í september 2017 kom fram að þörf er á frekari stuðningi við krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.

  • Almennt töldu 80% svarenda að stuðningur vegna réttindamála þeirra sem greinst höfðu með krabbamein væri ófullnægjandi, en næstum 90% þeirra sem sjálfir höfðu greinst voru þeirrar skoðunar.

  • Alls töldu 80% að sálrænum einkennum væri ekki sinnt nægilega vel og 70% sem greinst höfðu með krabbamein sjálfir voru sömu skoðunar.

  • Stuðningur við aðstandendur á meðan meðferð stóð var talinn ófullnægjandi af um það bil 70% þátttakenda og 60% sem höfðu greinst með krabbamein voru sömu skoðunar.

  • Þegar svör aðstandenda krabbameinssjúklinga voru skoðuð sérstaklega kom fram að 70% töldu stuðninginn ófullnægjandi.

  • Enn stærra hlutfall bæði aðstandenda og þeirra sem höfðu greinst með krabbamein sem taldi vanta upp á stuðning að meðferð lokinni.  

Ása Gunnlaugsdóttir hönnuður slaufunnar 2017 

Sigurvegari í samkeppni um hönnun Bleiku slaufunnar 2017 er asa iceland en Ása Gunnlaugsdóttir gullsmiður og hönnuður hannaði slaufuna. Skartgripir asa iceland eru seldir í skartgripaverslunum víða um Ísland og eru þekktir fyrir stílhreina og vandaða hönnun.

Ása hefur víðtæka reynslu í hönnun og smíði skartgripa og hefur starfað sem hönnuður á Íslandi, Finnlandi og í S-Kóreu. Ása lauk MA-prófi í iðnhönnun við University of Art and Design (UIAH) í Helsinki og BA-prófi í gull- og silfursmíðum frá Lahti Design Institute í Finnlandi. Í Finnlandi starfaði hún með námi sem gullsmiður hjá stærsta skartgripafyrirtæki Finnlands, Kalevala Jewelry. Eftir nám kenndi hún skartgripahönnun við UIAH. Síðar rak hún vinnustofu í Helsinki. 

Samkeppnin fór nú fram í sjötta sinn í samstarfi Krabbameinsfélags Íslands og Félags íslenskra gullsmiða. Í ár bárust níu tillögur sem afar erfitt var að velja úr enda allar mjög metnaðarfullar. Við þökkum öllum þeim gullsmiðum sem sendu inn tillögur að Bleiku slaufunni í ár.

Við hjá Krabbameinsfélaginu erum afar ánægð með samstarfið við Félag íslenskra gullsmiða og hlökkum til að þróa það áfram.