Hefur þú þörf fyrir stuðning og spjall?

Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins geta aðstandendur fólks sem greinst hefur með krabbamein fengið ýmsar upplýsingar, ráðgjöf og stuðning.

Það er flestum áfall þegar ástvinur greinist með krabbamein.  Þá er algengt að hugsanir og tillfinningar af ýmsum toga geri vart við sig.  Þú gætir upplifað ýmislegt sem tengist því að verða fyrir áfalli eða sjokki, eins og; örvinglan, sorg, vonbrigði, afneitun, dofa, erfiðleika við einbeitingu. Einnig gætirðu upplifað svipaðar tilfinningar og sýnt svipuð viðbrögð og sá sem greinist með krabbamein.

Þegar ástvinur greinist með krabbamein gæti verið hjálplegt að rifja upp þau bjargráð sem hafa gagnast þér vel áður. Að læra að þiggja aðstoð eða stuðning er fyrir marga mikill lærdómur og stórt skref.

Hafa ber í huga að það getur verið misjafnt hvenær og hvort þörf fyrir stuðning skapast í veikindaferlinu. Stundum gerist það ekki fyrr en að meðferð er lokið og við tekur að melta allt það sem á undan er gengið. Það getur verið að þörfin fyrir stuðning og úrvinnslu komi ekki fram fyrr nokkuð langt er liðið frá veikindunum eða ef þau taka sig upp aftur.

Í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er boðið upp á fræðslu, upplýsingar, ráðgjöf og stuðning við aðstandendur hvort sem ástvinur hefur greinst nýlega eða fyrir lengri tíma.

Við erum til staðar þegar á þarf að halda. Markmið okkar er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi við breyttar aðstæður í lífinu, veita stuðning og nauðsynlegar upplýsingar. Hjá okkur fá aðstandendur ráðgjöf og fræðslu um þann fjölbreytta stuðning og þjónustu sem í boði er.

Ráðgjafarþjónustan er öllum opin og hægt er að koma án þess að gera boð á undan sér. Hægt er að hafa samband við starfsmenn Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í tölvupósti á netfangið radgjof@krabb.is eða í síma 800 4040 alla virka daga til að spjalla eða bóka tíma hjá hjúkrunarfræðingi, félagsráðgjafa eða sálfræðingi.

Kynntu þér fræðsluefni Ráðgjafarþjónustunnar fyrir aðstandendur.