Skimun fyrir Brjósta­krabbameini

Nýttu boð í skimun fyrir brjóstakrabbameini -það skiptir raunverulegu máli

Konur sem fara reglulega í skimun fyrir brjóstakrabbameini eru í minni hættu á að deyja úr slíku meini. 


Hver er mögulegur ávinningur af brjóstaskimun?

Með röntgenmyndatöku af brjóstum er mögulegt að greina brjóstakrabbamein áður en meinið er komið á það stig að manneskjan finni fyrir nokkrum einkennum. 

Það skiptir miklu máli af því að því styttra á veg sem krabbamein í brjósti er komið þegar hægt er að grípa inn í, því meiri líkur eru á að það náist að stöðva vöxt þess og koma í veg fyrir að það nái að dreifa sér. Einnig eru þá minni líkur á að þörf sé á jafnmikilli meðferð og ef meinið fyndist síðar í sjúkdómsferlinu.

Konur á aldrinum 40-74 ára fá boð í brjóstaskimun með reglubundnum hætti. 

VIÐ HVETJUM ÞIG TIL AÐ BÓKA TÍMA Í SKIMUN UM LEIÐ OG ÞÚ FÆRÐ BOÐ. 

Skimun fyrir brjóstakrabbameini fer nú fram í Brjóstamiðstöð Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. 

Upplýsingar um tímabókun í skimun.

Vertu samt líka vakandi fyrir einkennum

Þó að þú mætir reglulega i skimun ættir þú líka að fylgjast með brjóstum þínum og skoða þau reglulega. Ef þú verður vör við óvenjulegar breytingar, svosem hnút í brjósti eða handarkrika, breytingar á stærð eða lögun brjósts, breytingar á geirvörtu eða önnur einkenni ættir þú að leita til læknis eða Brjóstamiðstöðvar Landspítala . Ekki bíða eftir boði í skimun, skimunin er fyrir einkennalausar konur. Myndband um sjálfskoðun brjósta.

Mögulegir ókostir brjóstaskimunar

Öllum rannsóknum og prófunum fylgja bæði kostir og gallar. Engar rannsóknir geta heldur gefið óyggjandi svör hverju sinni. Þetta á einnig við um skimun fyrir brjóstakrabbameini.

Hætta á svokölluðum fölskum greiningum:

Ef röntgenmynd gefur til kynna breytingar í brjósti sem læknar telja mögulega vera krabbamein, eru breytingarnar rannsakaðar nánar. Ef slíkar nánari rannsóknir gefa til kynna að ekki sé um krabbamein að ræða, flokkast upphaflega greiningin undir það sem kallast fölsk jákvæð greining.

Flestar þeirra kvenna sem er boðaðar eru í endurteknar og nánari rannsóknir vegna einhvers sem hefur vakið grun í fyrstu skoðun greinast án krabbameins í kjölfar endurtekinnar myndatöku eða með rannsóknum á vefjasýnum.

Sumar konur sem fara í skimun, greinast með og eru meðhöndlaðar vegna brjóstakrabbameins sem hefði aldrei fundist ef ekki hefði verið fyrir skimunina og hefði ekki haft skaðleg áhrif í för með sér. Slíkt kallast ofgreining og er helsti ókostur skimunar fyrir brjóstakrabbameini. Nútímatækni og þekking býður enn sem komið er ekki upp á að greina á milli hvort brjóstakrabbamein á snemmstigi sé hægvaxandi og þess eðlis að það myndi aldrei hafa áhrif á heilsu konunnar þrátt fyrir enga meðhöndlun eða hvort um sé að ræða krabbamein sem án meðhöndlunar gæti þróast og orðið konunni að aldurtila. Þess vegna er öllum konum sem greinast með brjóstakrabbamein boðin krabbameinsmeðferð.

Einnig getur það átt sér stað að hnútur eða aðrar breytingar í brjósti af völdum krabbameins koma af einhverjum ástæðum EKKI fram á röntgenmynd. Slíkt má mögulega rekja t.d. til tæknilegra örðugleika, mannlegra mistaka, þess að hnútar eru smærri en greinanlegt er á mynd eða annarra þátta.

Hætta á geislun

Þegar tekin er röntgenmynd af brjóstunum við skimun verða þau fyrir smávægilegri geislun. Fræðilega séð getur geislunin valdið lítillega aukinni áhættu á brjóstakrabbameini. Sú áhætta er þó hverfandi.

Hætta á að konur upplifi ónauðsynlegar áhyggjur, vanlíðan og ótta

Konur geta fundið til kvíða og andlegrar vanlíðunar í tengslum við skimunina, þetta á helst við um þær sem kallaðar eru inn í nánari rannsóknir í kjölfar myndatöku. Sumar þeirra geta fyllst ótta og kvíða yfir því að um krabbamein gæti verið að ræða.

Því lengri tími sem líður á milli þess sem kona er boðuð í nánari rannsóknir og þar til rannsóknirnar fara fram, og svo aftur þar til niðurstöður fást, því meiri áhrif getur það haft á konuna hvað varðar kvíða og aðra andlega vanlíðan af þessum völdum. Þetta getur haft áhrif á getu þeirra til að sinna daglegum störfum ef þetta leggst þungt á þær. Það getur einnig tekið tíma að jafna sig á slíkum ,,sjúkdómskvíða“ , jafnvel þó að hnúturinn eða aðrar breytingar sem greindust hafi reynst góðkynja.

Upplifun í sjálfri myndatökunni

Myndatakan getur verið óþægileg og sumar konur finna til sársauka. Í langflestum tilvikum eru þetta þó skammvinn óþægindi eða sársauki.