Sandra hefur alltaf verið keppnismanneskja: „Var ákveðin í að klára þetta eins og mamma“

Saga Söndru Ellertsdóttur

  • Í miðjum flutningum: Ólafur Jakob, maður Söndru, Sandra, Annabella Jósefsdóttir Csillag, mamma hennar og pabbi, Ellert Csillag Sigurðsson.
  • Sandra

 „Stuðningur fjölskyldunnar skiptir gríðarlega miklu máli í öllu þessu ferli. Ég fann alltaf fyrir miklum stuðningi frá manninum mínum - sem stendur eins og klettur við hlið mér í gegnum súrt og sætt - og auðvitað frá fjölskyldunni minni.“

Sandra er barnshafandi, komin 33 vikur á leið, eftir að hafa gengið í gegnum brjóstakrabbamein í tvígang. Fyrst fékk hún krabbamein í vinstra brjóst 27 ára árið 2013 og svo í það hægra árið 2016. Móðir hennar fékk brjóstakrabbamein 2006 og í ljós hefur komið að þær eru báðar með BRCA1 stökkbreytt gen. 

„Það hjálpaði mér gríðarlega mikið að hafa horft á hana ganga í gegnum sitt ferli því ég hafði svo góða fyrirmynd í henni. Vinnustaðurinn var líka rosalega mikilvægur. Ég fékk að vinna eins og mér hentaði og fann hvað það var gott að vera með vinnufélögunum og hugsa um eitthvað annað en veikindin.“

Læknarnir töldu 30% líkur á því að Sandra yrði ófrjó eftir fyrri lyfjameðferðina og þá fór hún í eggheimtu til að eiga fósturvísa. Þá náðist einungis einn fósturvísir. Fyrir seinni meðferðina reyndu þau aftur eggheimtu en þá var engin örvun í eggjastokkunum og það gekk ekki: „Það var dálítið mikið sjokk. Ég hélt að ég væri orðin alveg ófrjó og læknarnir gátu ekki sagt til um hvort eggjastokkarnir myndu mögulega kveikja á sér aftur. Tíminn yrði að leiða það í ljós.“ 

Um fjórum mánuðum eftir að seinni lyfjameðferð lauk fór kerfið hægt og rólega í gang og þau hjónin reyndu að verða barnshafandi náttúrulega: „Við tímdum ekki að nota þennan eina fósturvísi strax. Og ótrúlegt en satt, þá gekk það frekar hratt fyrir sig.“

„Þegar ég hugsa til baka þegar ég var í lyfjameðferðinni hefði mér ekki dottið til hugar að ég yrði ófrísk eftir tvö ár. Það var mjög fjarlægur draumur, því ég hafði þurft að sætta mig við að bíða með að verða ófrísk um óákveðinn tíma.“

„Allt þetta ferli hefur kennt mér að lifa í núinu. Ég held ég sé einstaklega heppin með fjölskyldu og vini og finnst mikilvægt að vera jákvæð og bjartsýn. Hugarfarið skiptir svo miklu máli. Og svo hef ég alltaf verið mikil keppnismanneskja. Ég ætlaði að sigra meinið. Ef maður hefur ekki trú á sjálfum sér, hver gerir það þá? Ég var ákveðin í að klára þetta eins og mamma.“

„Mamma og pabbi eru náttúrlega bara best. Þau hafa alltaf hjálpað okkur ólýsanlega mikið og við hefðum ekki getað flutt án þeirrar hjálpar. Svo fengum við líka ómetanlega hjálp við að mála og koma íbúðinni í stand frá vinum.“ 

Í miðjum flutningum: Ólafur Jakob, maður Söndru, Sandra, Annabella Jósefsdóttir Csillag, mamma hennar og pabbi, Ellert Csillag Sigurðsson.

„En nú bíð ég bara eftir að verða mamma og takast á við það hlutverk – sem ég er mjög spennt fyrir.“

Sandra segir að lífið hafi gengið glimrandi vel hjá henni. Hún eignaðist dóttur skömmu eftir ljósmyndasýninguna 2018: „Það gengur vel í móðurhlutverkinu og það er klárlega það besta og skemmtilegasta sem ég hef gert, en getur verið krefjandi á köflum. Yndislega stelpan okkar Alexandra er að verða tveggja ára í nóvember. Annars hefur lítið annað gerst síðan síðast og heilsan er blessunarlega góð. Ég er þakklát fyrir hvern dag.“

Alexandra, dóttir Söndru, við leik 2020.