„Óskaplega gott að vita að maður geti leitað til vinkvenna“

Saga Deliu Kristínar Howser

  • Delia hélt boð fyrir vinkonur sínar, en einungis um helmingur komst á þeim tíma sem boðið var, það voru þær Vigdís Gunnars, Helga, Anna Soffía, Guðrún, Salome, Guðlaug Steindórs, Elína, Sigurða, Þóra Rósa, Guðlaug Helga, Vigdís Jóns, Þórdís Gísla, Sigríður, Matthildur, Sólveig Dóra (tengdadóttir Deliu), Lilja Guðrún (dóttir Deliu), Hildur (vinkona Lilju) og Helma dóttir hennar.
  • Delia

„Ég kallaði strax í krakkana mína og tengdabörn og sagði þeim frá þessu og þau hafa verið mér óskaplega mikill og góður stuðningur. Síðan stofnaði ég hóp á Facebook sem ég kallaði Verkefnið 2017 og í honum eru hátt í 70 nánar vinkonur, fjölskyldumeðlimir og svo vinkonur sem tengjast mér til dæmis í gegnum hundana, vinnuna og svo framvegis. Eini karlmaðurinn í hópnum er sonur minn. Þessi hópur hefur verið mér ómetanlegur í ferlinu og ég er bara svo sjúklega heppin með þau öll.“

Delía uppgötvaði hnút í brjóstinu í lok mars 2017 og fékk í framhaldinu greiningu um að hún væri með brjóstakrabbamein. Við tók brjóstnám, lyfjameðferð og svo uppbygging brjóstanna, en það ferli er enn í gangi þar sem eftir á að móta geirvörtu, gera tattoo og fylla upp með fitu. Í síðustu viku var Delia útskrifuð úr lyfjameðferðinni, er laus við lyfjagjafir en tekur töflur einu sinni á dag.

Inn á Facebooksíðuna hefur Delia póstað fréttum af meðferðinni og hvernig hefur gengið. En hún segist ekki hafa verið mikið að væla þar:

„Það hef ég gert meira í persónulegum samtölum, það sjaldan ég fann þörfina auk þess sem hundarnir mínir tóku við tárum og öskrum í gönguferðum. Hjálpin og stuðningurinn sem maður fær í kjölfarið á svona veikindum er svo mikilvægur og það er svo óskaplega gott að vita að maður geti leitað til vinkvenna, þótt maður þiggi ekki allt sem manni er boðið. Því sumt getur maður ekki lagt á börnin sín þótt þau séu orðin fullorðin.“

Þegar hárið fór að vaxa aftur á Delíu eftir meðferðina fékk hún gjarnan spurninguna: „Bara alveg orðin hress?“ Þessu fylgdi undrun yfir því að hún væri ekki komin á fullt aftur í vinnu: „Þetta fannst mér erfitt, því ég var enn í lyfjameðferð.“

Delia hélt boð fyrir vinkonur sínar, en einungis um helmingur komst á þeim tíma sem boðið var, það voru þær Vigdís Gunnars, Helga, Anna Soffía, Guðrún, Salome, Guðlaug Steindórs, Elína, Sigurða, Þóra Rósa, Guðlaug Helga, Vigdís Jóns, Þórdís Gísla, Sigríður, Matthildur, Sólveig Dóra (tengdadóttir Deliu), Lilja Guðrún (dóttir Deliu), Hildur (vinkona Lilju) og Helma dóttir hennar.

Delía á sex hunda sem reyndust henni mikill stuðningur í veikindunum, Team Hraunhvammur, kallar hún hópinn sem þreyttist ekki á gönguferðum með henni úti í náttúrunni. Og hún mælir með því að fólk sé bjartsýnt lendi það í þessum aðstæðum, hlusti á lækna- og hjúkrunarteymið og fylgi því sem þau segi: „Já, og leyfi sér að skæla og vera sár og reið, því það er hluti af ferlinu, en bara passa sig að dvelja þar ekki of lengi. Það er svo mikilvægt að njóta hverrar mínútu og framkvæma það sem þig langar og treystir þér til. Og umfram allt annað er mikilvægt að hreyfa sig.“

Delia-og-hundarnirDelia og Team Hraunhvammur í einni gönguferðinni.