Sögur kvenna

Hér má sjá afrakstur ljósmyndasýningarinnar BLEIK sem byggir á persónulegum sögum 12 kvenna sem greinst hafa með brjósta- eða leghálskrabbamein og farið í meðferð en einnig er fjallað um mikilvægi vinahópa í því ferli. Ásta Kristjánsdóttir, ljósmyndari, Sóley Ástudóttir, förðunarfræðingur, Anna Clausen, stílisti og Sigríður Sólan, blaðamaður, eiga veg og vanda að sýningunni. Ljósmyndasýningin BLEIK var sýnd á fjórum stöðum á landinu í október 2018. Hér má sjá sögur kvennanna.


Olga og vinkonur

Olga á sterkan vinahóp: „Elska þau endalaust án skilyrða“

 „Ég einangraðist mikið eftir að ég greindist með brjóstakrabbameinið 2013 og bjó í Svíþjóð. Ég vann ekki mikið í veikindunum og þar var enginn andlegur stuðningur eða tengslanet. Þó svo að ég eigi trygga vini á Íslandi, er erfitt að vera langt í burtu frá þeim þegar maður gengur í gegnum veikindi.“

Lesa meira

Elín fór í djúpa sjálfsskoðun: „Krabbameinið setti lífið í samhengi“

 „Krabbameinið setti lífið í samhengi og ég áttaði mig á því hvað skiptir mig mestu máli. Það var ómetanlegt að finna stuðning og umhyggju fjölskyldu og vina og svo stækkaði vinahópurinn eftir því sem leið á því krabbamein tengir fólk saman.“

Lesa meira

„Þakklát þeim sem tóku utan um mig“

„Það var í febrúar sem ég fann meinið í brjóstinu. Ég fékk áfall.  Nú væri kannski ekki svo mikið eftir af lífinu. Ég sem hélt alltaf að ég væri svo ábyggileg að fara í skoðanir og skoða sjálf. En ég hafði gleymt mér um tíma.“

Lesa meira

Vinirnir styrkur í gegnum krabbameinsferlið

 „Ég hef alltaf verið meðvituð og þakklát fyrir minn stóra og sterka vinahóp sem hefur verið samheldinn frá því í grunnskóla. Auk þess hef ég eignast fleiri góða og trausta vini í gegnum tíðina sem hafa reynst mér mikill styrkur í gegnum krabbameinsferlið. Að eiga svo stóran og frábæran vinahóp var að mínu mati eins og eitt af meðferðarúrræðunum. Vinirnir höfðu ómælda þolinmæði til að hlusta á mig, sýna skilning og stuðning en á sama tíma voru þeir einnig tilbúnir að gleyma öllum erfiðleikum með mér ef því var að skipta.“

Lesa meira

Sandra hefur alltaf verið keppnismanneskja: „Var ákveðin í að klára þetta eins og mamma“

 „Stuðningur fjölskyldunnar skiptir gríðarlega miklu máli í öllu þessu ferli. Ég fann alltaf fyrir miklum stuðningi frá manninum mínum - sem stendur eins og klettur við hlið mér í gegnum súrt og sætt - og auðvitað frá fjölskyldunni minni.“

Lesa meira

„Ég er orðin þakklátari fyrir allt hið smáa í lífinu“

 „Ég er þakklátust fyrir þau í fjölskyldunni sem voru til staðar fyrir mig og leyfðu mér að takast á við þessi veikindi mín eins og ég vildi fá að takast á við þau. Síðan eru það vinkonurnar, vinkonuhóparnir og vinnufélagar sem skiptu miklu máli. En fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að vera enn lifandi og við góða heilsu á ný.“

Lesa meira

„Ég hef mikla trú á jákvæðri hugsun“

„Það er ótrúlegt hvað það getur skipt miklu máli að finna fyrir því hvað margir eru til staðar fyrir mann ef eitthvað kemur upp. Ég fékk óendanlegan stuðning bæði frá fjölskyldu og vinum, en líka frá samfélaginu heima á Þórshöfn.“

Lesa meira

Vinkonurnar drógu Sóleyju í brunch fyrir lyfjameðferðina

„Fjölskylda og vinir skipta miklu máli þegar maður fær svona stórar fréttir. Það er nauðsynlegt að hafa einhvern að leita til og geta talað um hluti, grátið og hlegið. Maðurinn minn stóð eins og klettur við hlið mér og það skipti öllu máli, maður var ekki einn. Hvort sem það var knús, að hjálpa manni í gegnum lyfjameðferðina, elda eitthvað góðgæti eða bara að ræða málin. Samt er líka gott að eiga stund með sjálfum sér, átta sig á hlutunum, anda djúpt og hugsa hvernig maður vill tækla svona verkefni.“

Lesa meira

Petrína var umvafin kærleika: „Jákvæðni er besta vítamínið“

„Ég var umvafin kærleika og jákvæðni og það hjálpaði mér mikið í öllu þessu ferli. Öllum var auðvitað mjög brugðið að fá þessar fréttir en ég var strax ákveðin í að sigrast á krabbameininu. Mikilvægast er að eiga fjölskyldu og vini sem eru jákvæðir og hjálpa til í veikindunum. Ég er heppin, bæði fjölskylda og vinir stóðu eins og klettar við hlið mér í baráttunni við krabbameinið.“

Lesa meira

„Fjölskyldan og vinirnir kötta krappið“

„Í fyrsta skipti sem ég grét fyrir framan lækninn minn var þegar ég spurði út í brjóstagjöf eftir krabbameinsmeðferð. Það var þá sem ég áttaði mig á því hver missirinn væri fyrir mig persónulega. Ég sem hafði mjólkað eins og besta beljan í fjósinu þegar strákurinn minn var á brjósti. Missirinn var ekki fagurfræðilegur, heldur líffræðilegur. Læknirinn hughreysti mig þó fljótt og sagði mér dæmi um að tvíburamæður hafi mjólkað nóg með einu brjósti. Líkaminn er svo sannarlega magnað fyrirbæri og ég treysti líkama mínum.“

Lesa meira

„Dagurinn í dag er það sem skiptir máli“

„Mikilvægast í stuðningi vina og fjölskyldu er að finnast maður ekki vera einn. En ég held að það sé erfitt að vera aðstandandi og mér finnst erfiðast að horfa á döpur augu og sjá vanmáttinn, því þá finn ég svo til með þeim.“

Lesa meira

„Óskaplega gott að vita að maður geti leitað til vinkvenna“

„Ég kallaði strax í krakkana mína og tengdabörn og sagði þeim frá þessu og þau hafa verið mér óskaplega mikill og góður stuðningur. Síðan stofnaði ég hóp á Facebook sem ég kallaði Verkefnið 2017 og í honum eru hátt í 70 nánar vinkonur, fjölskyldumeðlimir og svo vinkonur sem tengjast mér til dæmis í gegnum hundana, vinnuna og svo framvegis. Eini karlmaðurinn í hópnum er sonur minn. Þessi hópur hefur verið mér ómetanlegur í ferlinu og ég er bara svo sjúklega heppin með þau öll.“

Lesa meira