saga Ásdísar

Í átaki Bleiku slaufunnar 2022 fáum við að kynnast sögu Ásdísar Ingólfsdóttur. Saga hennar er einstök en hún greindist með brjóstakrabbamein í tvígang. Fyrst fann hún æxli í vinstra brjósti og fimm árum síðar í hinu. 

Reynsluna setti hún fram í ljóðinu „Dregið verður um röð atburða“ sem herferð Bleiku slaufunnar byggir á.  

Ásdís er þakklát fyrir lífið og segir að það séu ekki allar jafn heppnar og hún. „En eftir því sem þekkingu vindur fram og eftir því sem fleiri fara í skimun þegar boðið kemur og eftir því sem fleiri styrkja starf Krabbameinsfélagsins þá mun fjölga í þeim hópi“ segir Ásdís.

Tvær sögur

Fyrri sagan mín

Sögurnar mínar eru tvær, önnur gerist um vor, börnin mín eru nýbúin að eiga afmæli orðin 10 og 16 ára og við höfum fengið afhent draumahúsið okkar. Pínulítið, næstum hundrað ára gamalt hús í vesturbænum sem við erum byrjuð að rífa allt innan úr. Í huganum er ég farin að pakka til að flytja. Tek til í pappírunum á skrifborðinu mínu þar sem liggur meðal annars kortið frá Krabbameinsfélaginu, boðun í skimun.

Ég var með samviskubit yfir að hafa ekki farið fyrir löngu, þetta kort var búið að velkjast um á borðinu mínu því ég var alltaf á leiðinni að hringja, kom mér ekki til þess. En svo hafði ég fundið til í vinstra brjóstinu þegar ég fór í nýja spangabrjóstarhaldann nokkrum dögum fyrr. Það var eitthvað þykkildi undir vinstra brjóstinu. Ég ákvað að hringja og panta tíma í skimun, þá gat ég líka hent miðanum, þá væri þetta frá.

Konan bauð mér tíma í maí, jú það er fínt, hugsaði ég. Í maí eru byrjuð próf,  þá hef ég lausan tíma eftir hádegi. Í maí verðum við örugglega búin að gera fullt í húsinu. Í maí er rétti tíminn og svo er þetta frá.

En í maí var þetta ekki frá. Þvert á móti byrjaði þetta í maí fyrir tuttugu árum. Ég fór í brjóstamyndatökuna og fékk svo símtal, var kölluð í ómskoðun og ástungu. Fékk tíma hjá lækni. Ég vissi það strax þegar ég leit á lækninn að þetta var ekki gott. Þurfti samt að bíða enn um sinn eftir niðurstöðum áður en ferlið sem margir þekkja fór í gang eins og vel æfð aðgerðaáætlun. Brjóstið var fjarlægt með skurðaðgerð eftir eitilnám og lyfjameðferðin hófst síðsumars. Hárið fór, ég sá mikið eftir því og er enn alltaf að safna hári.

Við héldum auðvitað áfram að vinna í húsinu. Halli, maðurinn minn, vann dag og nótt svo við gætum flutt á tilsettum tíma. Allir sem áttu lausa stund og þekkingu komu og hjálpuðu. Ingólfur bróðir reif út gömlu ofnalagnirnar, tengdapabbi gerði við rafmagn, einn vinur reif vegg og reisti annan. Nokkrir skófu appelsínugult betrekk af veggjum. Sonur minn braut gamlar flísar í eldhúsinu. Þetta voru annasamir tímar en góðir tímar. Við héldum veislu í garðinum sem vinkona mín hafði hjálpað mér við að hreinsa. Ég einhent eftir uppskurð, hún eins og jarðýta í beðunum. Vinir, ættingjar og vinnufélagar aðstoðuðu svo við vorum tilbúin í flutninga um miðjan júlí.

Heppin

Það var fallegur dagur þegar við fluttum. Við höfðum látið boð út ganga og viti menn það mættu svo margir að ég held að hver og einn hafi bara þurft að bera út einn stól eða bókakassa í flutningabílinn. Svo sat ég í kassahrúgunni og hugsaði um hvað ég er heppin.

heppin að búa hér þar sem boðið er upp á skimun

heppin að hafa farið í þessa skimun, svo meinið greindist fyrr en seinna.

heppin að hafa fengið brjóstkrabba sem hægt var að skera og fjarlægja

heppin að allt brjóstið var fjarlægt og ég þurfti ekki að fara í geislameðferð

heppin að eiga vini og fjölskyldu sem fóru í gegnum þetta með mér

heppin að geta sótt þjónustu til Krabbameinsfélagsins

þar sem ég fór í hugleiðslu, sótti námskeið í förðun og fór í veiði með Kastað til bata.

Og lífið í litla húsinu var ljúft, börnin stækkuðu. Ég fór í nám með vinnu, kenndi og tók þátt í endalausum erlendum samstarfsverkefnum. Kynntist konum í fjórum löndum sem höfðu fengið brjóstakrabbamein, við vorum tengdar á einhvern hátt sem ég hafði ekki tengst öðru fólki. Tengdumst brjóstaböndum.

Seinni sagan mín

Og svo kom enn og aftur haust. Skólinn var að byrja og ég var eitthvað þreytt. Stelpan mín sem nú var að byrja í framhaldsskóla spurði mig hvað væri að. Jú, ég er eitthvað ómöguleg, sagði ég, kannski eru það lyfin sem ég er alveg að verða búin með. Búin að taka þau í fimm ár, þessu var að ljúka. Fimm ár liðin og bráðum yrði þetta búið. Aukaverkanir á bak og burt.

Við töldum töflurnar sem voru eftir, tuttugu og ein tafla eftir og ég pantaði tíma í brjóstamyndatöku. Gerði að gamni mínu við konuna í símanum hvort ég fengi ekki afslátt, ég væri bara með eitt brjóst. Hitt sé úr silikoni með saltvatni inn í og þurfi ekki að mynda það. Hún tók ekki undir grínið en ég fékk tíma í byrjun október. Best að klára þetta.

En þetta kláraðist ekki. Það var hringt, það var eitthvað í hægra brjóstinu. Ég þyrfti að fara í ástungu og það sem mér hafði alltaf fundist óhugsandi hafði gerst. Ég var með mein í hægra brjóstinu og ekki nóg með það, þetta var ekki samskonar mein. Þetta var önnur tegund. Ég sat í bílnum fyrir framan hús Krabbameinsfélagsins og hringdi í systur mína. Grét og bölvaði. Fannst þetta ósanngjarnt, ég átti að vera að klára ekki byrja upp á nýtt.

Áfram heppin

Nú hófst ferlið með fleygskurði, sem mér fannst algjört píp. Ég var eiginlega reið þegar læknarnir töluðu eins og þeir væru að reyna að bjarga brjóstinu. Ég varð hreint út sagt fegin í viðtalinu eftir að niðurstöðurnar komu þegar læknirinn sagði að því miður yrði að taka allt brjóstið. Ég svaraði; Frábært. Burt með þetta allt. Fjarlægið allan brjóstvef. Ég fer svo bara í uppbyggingu, læt laga vinstri brjóstapúðann sem var alltaf eitthvað skakkur og fæ nýtt par. Flottara. Og ég var svo heppin að á þessum tíma var nýkominn til landsins lýtalæknir sem sérhæfði sig í uppbyggingu brjósta. Því ég fer ekki ofan af því að ég er heppin,

heppin að hafa fyrirmyndir sem sýndu mér að lífið heldur áfram

heppin að eiga börn sem halda ótrauð áfram með lífið og gera mig stolta

heppin að eiga mann sem sér um að koma Bleiku slaufunni á framfæri á sínum vinnustað

heppin að vera með ódauðleg brjóst

heppin að vera á lífi

Það eru ekki allir jafn heppnir og ég en þeir verða fleiri og fleiri eftir því sem þekkingu vindur fram og eftir því sem fleiri fara í skimun þegar boðið kemur og eftir því sem fleiri styrkja starf Krabbameinsfélagsins ... Sýnum lit.

Munum eftir Bleiku slaufunni

Ódauðleg brjóst - ljóðabók

Ódauðleg brjóst er sérstök viðhafnarútgáfa á ljóðabók
 Ásdísar Ingólfsdóttur sem var gefinLjodabok út árið 2018 undir nafninu Eftirskjálftar.  Fyrsta ljóðabók hennar, Ódauðleg brjóst, kom út 2018 og var tilnefnd til Maístjörnunnar. Sum af ljóðunum úr þessari bók birtust fyrst þar. Í þakklætisskyni fyrir veittan stuðning gefur höfundur allan ágóða af sölu bókarinnar til Krabbameinsfélagsins. 

Ljóðið „Dregið verður um röð atburða" sem herferð Bleiku slaufunnar byggir á er að finna í bókinni Ódauðleg brjóst.


Dregið verður um röð atburða 

Lífið er að fæðast, lífið er að nærast, þroskast og hlæja, dýrka
pabba sinn, finna vonda lykt, kasta upp og plokka hor úr
nefinu. Lífið er að elska, missa tönn, passa lítil börn, hopp´ í
parís, fara í sund með systrunum.

Ekki sleikja handriðið í frosti

Lífið er að kveljast, vera á blæðingum, fara í klippingu, tapa í
handbolta, verða bumbult á jólunum, hata bíómynd og elska
Bieberinn. Lífið er að skrópa í skólanum, skemmta skrattanum
án þess að meiða neinn, fara á fyllerí og gefa dauðann í allan
djöfulinn.
Ekki kasta steini í gróðurhús í Hveragerði

Lífið er að vita að maður er til og veðrið skánar, fara til Færeyja,
pæla í pólitík, vera í frænkuklúbb, fara fjandans til, að lokum
finna sig, klára námið sitt, vinna yfir sig. Lífið er að segja upp
kærasta, finna nýjan, missa fóstur, finna mann sem lyktar vel án
ilmefna, taka lán og eignast íbúð.

Ekki gleyma ljósunum á Trabbanum

Lífið er að þrauka um stund, kjósa forseta, verða gjaldþrota,
eiga son og eignast dóttur. Skipta um skoðun, hætta að reykja,
brjóta veggi, elska náungann og nesta barnið sitt. Lífið er að
hugsa um umhverfið, flokka ruslið sitt, rækta kanínur, læra
tungumál, eiga lítinn garð, kaupa í Ikea.

Ekki gleyma að skrúfa fyrir baðvatnið

Lífið er að finna æxli í vinstra brjóstinu, seinna hinu, vera hætt
komin, horfa á sjónvarpið, kveðja gamalt fólk, rek´inn nefið,
lesa bókmenntir og gamla reyfara. Lífið er að halda matarboð,
fara í fótbolta, njóta stundanna, drekka eðalvín, fara í skíðafrí
og skanna útsölur.

Ekki henda eldspýtu í þurra sinu í Borgarfirði

Lífið er að lifa dauðann af og líka verkföllin, ala upp börn og
kannski barnabörn, sækj´um sumarhús og setja öðrum mörk.
Lífið er að grafa foreldra og líka systkini, vita allt og vita ekkert.
Lífið er að vera maður sjálfur, vera saman, vera sundur, vera til, þar til...

Ekki plana jarðarför í gríni