Rannsaka síðbúnar afleiðingar krabbameina í æsku með styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins

Ragnar Bjarnason og Vigdís Hrönn Viggósdóttir rannsaka, með styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins, síðbúnar afleiðingar krabbameina í æsku. Alls hafa 30 rannsóknir hlotið styrki að heildarupphæð 227 millj. kr. úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins sl. 4 ár.

Krabbamein og krabbameinsmeðferðir á barnsaldri geta haft afleiðingar sem koma fram síðar á ævinni. Ragnar Bjarnason læknir og prófessor og Vigdís Hrönn Viggósdóttir hjúkrunarfræðingur og doktorsnemi rannsaka síðbúnar afleiðingar krabbameina í æsku og einbeita sér að heilsufari, lífsgæðum og hjarta- og efnaskiptatengdum áhættuþáttum á fullorðinsaldri. 

Haustið 2016 opnaði Miðstöð síðbúinna afleiðinga krabbameina á Barnaspítala Hringsins. Hún er fyrir einstaklinga sem fengu krabbamein sem börn eða unglingar 1981 eða síðar, eru orðnir 18 ára og eru lausir við sjúkdóminn. Á miðstöðinni er boðið upp á reglubundna eftirfylgd upp að 25 ára aldri þar sem farið er yfir allt sem viðkemur krabbameininu sem fólk glímdi við, hvaða afleiðingar krabbameinið og meðferðin geta haft og með hverju þarf sérstaklega að fylgjast. Strax í upphafi var Vigdísi ljóst mikilvægi þess að fara ekki af stað með verkefnið án þess að gera rannsókn. Einstaklingar sem komu á móttökuna frá því hún opnaði haustið 2016 og þar til í árslok 2019 voru því beðnir um að taka þátt í rannsókninni. 

Við þurfum meiri þekkingu um síðbúnar afleiðingar krabbameina í æsku. Einnig verðum að vita hvernig móttakan nýtist og það mun rannsóknin einnig leiða í ljós. 

Lestu meira um rannsóknina þeirra og allar hinar rannsóknirnar sem hlotið hafa styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins.