Heilsu­sögu­bankinn: Ný rannsókn á áhættu­þáttum brjósta­krabba­meins

Áhrif áhættuþátta og skimunar á tíðni brjóstakrabbameins.

Opnað hefur verið fyrir nýja rafræna rannsókn á vegum Krabbameinsfélags Íslands sem öllum konum 18 ára og eldri býðst að taka þátt í. Þátttakendur eru beðnir um að svara stuttum spurningalista um nokkra þætti sem tengjast áhættu brjóstakrabbameins. Tilgangurinn er að rannsaka áhrif þekktra áhættuþátta og skimunar á nýgengi brjóstakrabbameins á Íslandi sem hefur hækkað mikið síðustu áratugi.

Með góðri þátttöku í rannsókninni gefst okkur kostur á að skilja betur hvernig á því stendur að tíðni brjóstakrabbameins hefur aukist síðustu áratugi. Svörin munu bætast við eldri spurningakönnun sem var í gangi árin 1964-2008 hjá konum sem mættu í krabbameinsleit á þeim tíma. Þær upplýsingar hafa nú þegar nýst í margar mikilvægar vísindarannsóknir.

Rannsóknin er unnin í samstarfi ýmissa vísindamanna innan Krabbameinsfélags Íslands, Háskóla Íslands ogHáskólans í Osló. Rafræn uppsetning spurningalistans sem og innskráning í rannsóknina var unnin í samstarfi við Maskínu og Taktikal.

Við hvetjum allar konur 18 ára og eldri að taka þátt.

Hægt er að fá enn frekari upplýsingar um rannsóknina með því að senda tölvupóst á netfangið heilsusogubankinn@krabb.is eða hringja í síma 835-4040.