Rannsaka frumustarfsemi sem hjálpar æxli að lifa af krabbameinsmeðferðir með styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins

Margrét Helga Ögmundsdóttir og Valgerður Jakobína Hjaltalín rannsaka, með styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins, ferli í frumum sem ver okkur fyrir krabbameinum en, ef æxli nær að myndast, hjálpar því að lifa af. Alls hafa 30 rannsóknir hlotið styrki að heildarupphæð 227 millj. kr. úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins sl. 4 ár.

Margrét Helga Ögmundsdóttir dósent við Háskóla Íslands og Valgerður Jakobína Hjaltalín doktorsnemi rannsaka niðurbrotsferli í frumum sem kallast sjálfsát. Ferlið er mjög mikilvægt fyrir heilbrigða frumustarfsemi, enda ver sjálfsát okkur fyrir krabbameinum. Hins vegar, ef æxli nær að myndast, þá hjálpar sjálfsát æxlinu að lifa af við erfiðar aðstæður. Slíkar aðstæður geta til að mynda verið krabbameinsmeðferðir. 

Þess vegna er verið að skoða hvernig hægt er að hindra þetta ferli meðan á krabbameinsmeðferðum stendur, með það fyrir augum að auka líkurnar á að meðferðin beri árangur.

Tengsl sjálfsáts og krabbameina eru að mörgu leyti enn óskilgreind. Meginmarkmið verkefnisins er að varpa ljósi á þessi tengsl. Lestu meira um rannsóknina þeirra og allar hinar rannsóknirnar sem hlotið hafa styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins.