Byggði upp gagnagrunn um æðaleggi hjá krabbameinsveikum börnum með styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins

Valtýr Stefánsson Thors byggði upp, með styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins, gagnagrunn um æðaleggi hjá krabbameinsveikum börnum. Verkefnið hefur valdið vitundarvakningu á Barnaspítalanum. Alls hafa 30 rannsóknir hlotið styrki að heildarupphæð 227 millj. kr. úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins sl. 4 ár. 

Öll krabbameinsveik börn þurfa að hafa miðlæga bláæðaleggi meðan þau eru í lyfjameðferð. Í þessa æðaleggi er hægt að gefa krabbameinslyfin, blóðhluta, sýklalyf og öll önnur lyf og úr þeim er hægt að taka blóðsýni, sem þarf að gera mjög reglulega. En því miður eru æðaleggirnir eru ekki alveg hættulausir því það geta komið upp sýkingar, blæðingar og stíflur. Þetta getur í sumum tilfellum verið alvarlegt og í öllum tilfellum dregið úr lífsgæðum barnanna sem reiða sig á bláæðaleggina.

Valtýr Stefánsson Thors sérfræðilæknir í barnalækningum og barnasmitsjúkdómum hefur skýra sýn:

Umönnun miðlægra bláæðaleggja hjá íslenskum börnum á að vera sambærileg og hjá bestu sjúkrahúsum í heimi.

Valtýr stýrði verkefni á Barnaspítalanum sem hlaut styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árin 2017 og 2018. 

Lestu meira um verkefnið og allar hinar rannsóknirnar sem hlotið hafa styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins.