Gerast velunnari

Velunnarar Krabbameinsfélagsins eru þeir sem kjósa að styðja við baráttuna gegn krabbameini með mánaðarlegu framlagi.
Sem velunnari gerir þú okkur kleift að bjóða margvíslega þjónustu, efla fræðslu og forvarnir, rannsóknir og ráðgjöf.

Mánaðarlegur stuðningur er árangursríkasta leiðin til að styðja við baráttuna gegn krabbameini því þannig getur félagið búið við ákveðinn stöðugleika í starfseminni og jafnframt lágmarkað fjáröflunarkostnað. Sem Velunnari hefur þú ávallt yfirsýn yfir þann stuðning sem þú veitir og getur hvenær sem er óskað eftir breytingum eða hætt stuðningi.

Gerast velunnari

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins

Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er veitt fjölbreytt þjónusta virka daga kl. 9:00-16:00. Hún snýr að upplýsingagjöf, fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við þá sem hafa greinst með krabbamein og við aðstandendur þeirra.

Rannsóknir

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins
Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins var stofnaður í desember 2015 með 250 milljóna stofnfé en þar á meðal eru framlög velunnara og söfnunarfé síðustu ár.

Markmið Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands er að efla íslenskar vísindarannsóknir á krabbameinum með því að styrkja rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.

Nánari upplýsingar á www.krabb.is

Krabbameinsskráin

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands skráir í einn grunn öll krabbamein sem greinast á Íslandi, gefur út tölfræðiupplýsingar og stundar rannsóknir í samvinnu við innlenda og erlenda vísindamenn auk afgreiðslu umsókna um gögn í þágu rannsókna.

Krabbameinsskráin hefur verið starfrækt af Krabbameinsfélagi Íslands í rúmlega 60 ár og tiltækar eru upplýsingar um greind krabbamein á öllu landinu frá og með árinu 1955.

Nánari upplýsingar um Krabbameinsskrána eru hér; www.krabbameinsskra.is

Velunnarasjóður Krabbameinsfélagsins

Velunnarasjóður Krabbameinsfélagsins styður við starf aðildarfélaga Krabbameinsfélags Íslands, bæði svæðafélaga og stuðningshópa með árlegum styrkjum til átaksverkefna. Sjóðurinn styrkir rekstur sjö þjónustuskrifstofa á landinu.

Dæmi um verkefni sem styrkt voru af velunnarasjóði 2015:

 • Þýðing og staðfærsla á fræðsluefni fyrir vef fyrir þá sem eru nýlega greindir með krabbamein í blöðruhálskirtli. Efnið var unnið í samvinnu við stuðningshópana Góða hálsa og Fríska menn .
 • Niðurgreiðsla á fjölbreyttu námskeiðahaldi aðildarfélaga s.s. jóga, endurhæfing, slökun, handavinna o.fl.
 • Niðurgreiðsla á orlofsdvöl fyrir krabbameinssjúklinga á Norðurlandi.
 • Starfsendurhæfingarnámskeið á Austurlandi.
 • Samstarfsverkefni við Rauða krossinn um stuðning við sjúklinga (Brosið).
 • "Kastað til bata" er verkefni á vegum Brjóstaheill -Samhjálpar kvenna, Krabbameinsfélagsins og styrktaraðila, þar sem konum er boðið til veiðiferðar.
 • Endurhæfingarverkefnið FítonsKraftur er endurhæfing í formi hreyfingar og útvistar fyrir ungt fólk á aldrinum 18 - 40 ára sem greinst hefur með krabbamein.

Fræðsla og forvarnir

Í hverjum mánuði eru haldnar ráðstefnur eða fræðslufundir, skrifaðar greinar, gefnir út bæklingar og vandað fræðsluefni á vefsíðu félagsins. Auk þess eru haldin fræðsluerindi í fjölda fyrirtækja og hjá félagasamtökum allt árið um kring.

 • Félagið gefur út fjölda fræðslurita sem eru aðgengileg á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum og dreift á vegum félagsins.
 • Félagið heldur fræðslufundi og ráðstefnur um ýmis málefni tengd krabbameini og stuðningi við sjúklinga, aðstandendur og til að auka þekkingu heilbrigðisstarfsfólks.
 • Félagið heldur úti vandaðri vefsíðu með yfirgripsmiklu fræðsluefni um krabbamein sem unnið er í samstarfi við fagaðila.
 • Félagið sinnir fræðslu og forvörnum í árveknisátökum eins og Mottumars og Bleiku slaufunni á hverju ári.
 • Starfsmenn halda fræðsluerindi og kynningar víða í samfélaginu eins og í fyrirtækjum og hjá félagasamtökum.

Hér finnur þú ítarlegt fræðsluefni um krabbamein.

Leitarstöðin og hópleit að krabbameini

Skipuleg leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum er unnin samkvæmt þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands í umboði heilbrigðisyfirvalda. Rekstur krabbameinsleitarinnar er annars vegar fjármagnaður af Alþingi samkvæmt fjárlögum og hins vegar af skoðunargjöldum sem ákvörðuð eru með reglugerð sett af heilbrigðisráðherra. 

Undirbúningur hópleitar vegna ristilkrabbameins hjá körlum og konum stendur yfir.

Sé litið til síðustu áratuga hefur þeim fjölgað sem greinast með brjóstakrabbamein en á hinn bóginn hefur fjöldi þeirra er látist hafa úr sjúkdómnum ekki aukist. Þetta þýðir að fleiri læknast af sjúkdómnum og fleiri lifa lengur eftir greiningu. Horfur eftir greiningu brjóstakrabbameins hér á landi eru afar góðar og langflestir sem greinast, eða um 85-90%, eru á lífi fimm árum eftir greiningu.

Nánari upplýsingar á www.krabb.is