Til þín sem varst að greinast með krabbamein

Sálræn viðbrögð við því að greinast

Það er flestum mikið áfall að greinast með krabbamein. Mörgum er kippt út úr sínu daglega lífi og við tekur ferli sem oft minnir einna helst á ferð í rússíbana.

Einstaklingurinn upplifir gjarnan að hann missi nær alla stjórn á lífi sínu sem getur fyllt hann vanmætti. Margir hafa lýst því þannig að allt í einu sé eins og lífið standi í stað en á sama tíma sé þeim kippt inn í veruleika sem felur í sér að hitta fjölmörg ný andlit, meðtaka ógrynni upplýsinga og heyra ný og framandi orð.

Spurningar um lífið og dauðann skjóta upp kollinum og áhyggjur af hugsanlegum breytingum á daglegu lífi sækja að. Það er eðlilegt að upplifa doða til að byrja með. Einnig er eðlilegt að finna fyrir ótta, depurð og einmanaleika.

Það getur hjálpað að deila líðan sinni og reynslu með einhverjum sem maður treystir. Hjá Krabbameinsfélaginu býðst þér að setjast niður með ráðgjafa og ræða um það sem  hvílir á þér.

Jafnvel þó það sé margt sem ekki er hægt að hafa stjórn á í þessum aðstæðum er engu að síður ýmislegt sem hægt er að gera til að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu í erfiðum og flóknum aðstæðum. Mikilvægt er að geta gefið sér svigrúm og tíma til að hlúa að sjálfum sér.  Þá skiptir oft máli að huga að þáttum eins og svefni, næringu, hreyfingu og ekki síst því að vinna með hugann og hugarástandið. Hér finnur þú upplýsingar sem gætu komið að gagni.

Kynntu þér  námskeið og fasta viðburði hjá Krabbameinsfélaginu sem  gætu gagnast þér, einnig geturðu skoðað dagskrána framundan.

Að þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda

Það er gott að minna sig á að heilbrigðisstarfsfólk starfar eftir bestu þekkingu og reynslu við meðhöndlun á krabbameini og leggur sig fram við að koma til móts við þig og þínar þarfir.

Hafir þú nýlega greinst með krabbamein er líklegt að næstu daga og vikur munir þú kynnast mörgum ólíkum deildum spítalans. Það gæti vaxið þér í augum að vera komin/n í aðstæður sem þú hefur tímabundið litla sjórn á. 

Hér er að finna upplýsingar um hvernig þú getur haldið utan um það sem varðar þína meðferð og heilsu.

Hér finnur þú upplýsingar um þá meðferð sem veitt er vegna krabbameins.
 

Að þiggja aðstoð

Þeir sem að greinast með krabbamein upplifa oft mikla umhyggju í sinn garð frá ættingjum, vinum, starfsfélögum, heilbrigðisstarfsfólki og öðrum. Það getur verið gott að hafa í huga að margir hafa þörf fyrir að aðstoða eða verða að liði á einhvern hátt.

Sumir geta þó ekki veitt aðstoð eða sýna ekki vilja til þess. Slíkt gæti sært þig eða reitt þig til reiði. Sérstaklega gæti verið erfitt að taka því ef fólk sem þú hafðir vænst þess að fá stuðning frá, veitir hann ekki. Það gæti brotist um þér af hverju að sá hinn sami er ekki meira styðjandi. Algengar ástæður gætu verið að viðkomandi:

  • Glímir við vandamál eða skortir tíma.
  • Óttast krabbamein eða á að baki erfiða reynslu tengda krabbameini.
  • Telur að það rétta sé að halda sig fjarri þegar aðrir eiga í vanda.
  • Áttar sig ekki á þeim erfiðleikum sem þú gengur í gegnum eða skynjar ekki að þú þarfnast aðstoðar nema þú tjáir það skýrt.
  • Er óöruggur þegar kemur að því að sýna umhyggju.

Ef þú færð ekki þá aðstoð eða þann stuðning sem þú telur þig þarfnast frá manneskju sem þú hafðir vænst hennar frá, gæti verið gott að ræða hreinskilnislega við hinn sama og útskýra hvers þú þarfnast. Þú gætir líka ákveðið að láta það eiga sig, en ef tengslin við manneskjuna eru þér mikilvæg, er sennilega best að segja viðkomandi hvernig þér líður. Það getur komið í veg fyrir að gremja eða streita safnist upp og skaði samband ykkar.

Að segja öðrum frá krabbameininu

Það reynist mörgum erfitt að segja sínum nánustu frá krabbameininu. Sumir hafa þörf fyrir að ræða opinskátt um krabbameinið á meðan aðrir velja að halda veikindunum út af fyrir sig eða að ræða þau aðeins við fáa útvalda.

Ef þú átt börn er mikilvægt að segja þeim frá því að þú hafir greinst með krabbamein. Börn finna fljótt fyrir öllum breytingum og hafa þörf fyrir upplýsingar sem hæfa þroska þeirra og aldri. Börn þurfa að fá að vera þátttakendur, annars er hætta á að þau upplifi sig utanveltu eða ímyndi sér hlutina verri en þeir eru í raun.  Hér getur þú nálgast upplýsingar um hvernig best er að ræða þessi mál við börnin í takt við aldur þeirra og þroska.
 

Ráðgjöf um réttindi

Það er ljóst að við greiningu krabbameins breytist margt. Meðal annars getur greiningin haft áhrif á fjárhag fjölskyldunnar en oftast verður innkoman minni en útgjöldin aukin, meðal annars vegna kostnaðar sem tengist rannsóknum, meðferðum, ferðum og mörgu fleiru.  

Réttindi þeirra sem greinast með krabbamein.

Upplýsingar – líttu við

Ef spurningar vakna um krabbamein getur þú hringt í síma 800 4040 eða sent okkur póst. Þú ert líka velkomin til okkar í Skógarhlíð 8. Reykjavík,  þar sem þú getur hitt fagfólk sem er tilbúið að aðstoða þig. Hjá Krabbameinsfélaginu starfa hjúkrunarfræðingar, sálfræðingur og para- og kynlífsráðgjafi við ráðgjöf og stuðning. Við erum til staðar fyrir þig.