Sóley Jónsdóttir 11. október 2017

Vegakort í ókunnugu landi

Í ár rennur söfnunarfé Bleiku slaufunnar til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Að sögn Höllu Þorvaldsdóttur er markmikið að efla stuðning, fræðslu og ráðgjöf fyrir fólk um allt land. 

Bleika slaufan snýst í raun um tvennt. Hún er árveknisátak sem snýr að krabbameini hjá konum og er fjársöfnun fyrir Krabbameinsfélagið. Markmiðið með Bleiku slaufunni í ár er að efla og styrkja Ráðgjafarþjónustuna, gera hana sýnilegri, lengja opnunartímann og fjölga úrræðum eftir því sem þörf krefur. Krabbameinsfélagið er með átta svæðisskrifstofur úti á landi og við viljum efla það starf enn frekar. Þá stendur til að koma á netráðgjöf. Ráðgöfin stendur öllum einstaklingum sem greinast með krabbamein til boða sem og aðstandendum þeirra," segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Krabbameinsfélagi Íslands, en síðustu tíu árin hefu félagið tileinkað októbermánuði baráttu gegn krabbameini hjá konum með sölu á Bleiku slaufunni. 


Bleika slaufan nýtur mikillar velvildar

Halla segir sérlega ánægjulegt að finna þann stuðning og velvild sem Bleika slaufan nýtur á meðal einstaklinga og fyrirtækja um land allt. „Það skemmtilega við þetta átak er hversu margir eru tilbúnir til að leggja því lið og vera með. Mörg fyrirtæki standa fyrir viðburðum upp á eigin spýtur eða eru með vörur til sölu þar sem allur ágóðinn rennur til Bleiku slaufunnar. Ég tel að þennan mikla áhuga megi rekja til þess að krabbamein snertir marga á einhvern hátt, einhvern tímann á ævinni.“


Léttir fólki róðurinn

„Þegar einstaklingur greinist með krabbamein er fyrirvarinn að því oft stuttur og lífið fer gjörsamlega á hvolf. Þótt krabbamein sé ekki lengur dauðadómur hefur það mikil áhrif á fólk og eðlilegt að margar erfiðar spurningar vakni hjá fólki sem þarf að takast á við þennan óboðna gest. Í þessum aðstæðum skiptir gríðarlega miklu máli að fólk fái stuðning, ráðgjöf og upplýsingar. Heilmikið hefur verið rannsakað hvað hægt er að gera til að auðvelda fólki að takast á við krabbamein og ástæðulaust að hver og einn finni það upp hjá sjálfum sér. Við hjá Krabbameinsfélaginu hugsum Ráðgjafarþjónustuna sem nokkurs konar vegakort í ókunnugu landi þar sem fólk ratar ekki um, veit ekki hvert leiðin liggur eða hvaða leiðir eru færar,“ segir Halla. „Það þurfa ekki allir að fara Fjallabaksleið, við getum bent á greiðfærari leiðir, úrræði sem hafa sýnt sig að létta fólki róðurinn.“

Hjá Ráðgjafarþjónustunni starfa reynslumiklir hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafi og sálfræðingur og þjónustan er fólki að kostnaðarlausu. „Hægt er að koma beint inn af götunni, panta tíma eða fá símaráðgjöf. Fólk getur komið eitt og sér eða tveir eða fleiri saman. Ráðgjafarþjónustan býður upp á alls konar námskeið, fjölbreytta fræðslu, fyrirlestra og hópastarf. Ég mæli með að fólk skoði heimasíðu félagsins vel, www.krabb.is og heimasíðu Bleiku slaufunnar, www.bleikaslaufan.is. Þar eru upplýsingar og fræðsla um krabbamein og einkenni þess, viðbrögð við því að greinast og alls kyns hagnýt ráð og upplýsingar. Svo er líka hægt að kaupa Bleiku slaufuna þar,“ segir Halla.