Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 26. september 2019

Frábærar viðtökur við bíókvöldi Bleiku slaufunnar

Bleika slaufan hefst með pompi og prakt þriðjudaginn 1. október þegar blásið verður til sýningar á Downton Abbey í Háskólabíó. 

Bleik stemming verður í anddyri hússins frá klukkan 19 og þar kynnir starfsfólk félagsins átakið og nokkrir styrktaraðilar Bleiku slaufunnar kynna vörur sínar til styrktar átakinu. Dagskrá hefst klukkan 20:00 og verður send út beint á vef og Facebooksíðu Bleiku slaufunnar. Kynnar verða leikkonurnar Dóra Jóhannsdóttir og Elva Ósk Ólafsdóttir.

Viðtökur við Bleika bíóinu hafa ekki látið á sér standa og hafa tæplega 300 miðar verið seldir innan við sólarhring eftir að miðasala hófst.

„Það er algjörlega frábært að sjá hversu vel sala miðanna fer af stað. Íslenskar konur eru auðvitað magnaðar og það er sérstaklega viðeigandi í ár að vinkonuhópar komi saman í bíó þegar áhersla Bleiku slaufunnar er á samstöðumátt vinkvenna undir slagorðinu: „Þú ert ekki ein,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Miðinn kostar 3.500 krónur og miðasala fer fram í vefverslun félagsins. Bleika slaufan 2019 er innifalin í miðaverðinu, en hún er hönnuð af Guðbjörgu Ingvarsdóttur í Aurum og er með nýju sniði í ár, í stað þess að vera næla er Bleika slaufan hálsmen.

Styrktaraðilar Bíókvölds Bleiku slaufunnar eru Háskólabíó, Exton, Rentapartý og Myndform. Allur ágóði rennur til Krabbameinsfélagsins.

Nældu þér í slaufu og kauptu miða á Downton Abbey !