Guðmundur Pálsson 16. október 2018

Boðorðin 10 heimfærð á heilsu okkar

Dr. María Ágústsdóttir, þjónandi prestur í Grensássöfnuði flutti meðfylgjandi erindi í „bleikri messu” sunnudaginn 7. október.

Fyrsta boðorð: Ég er Drottinn Guð þinn sem leiddi þig út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki aðra guði hafa.

HEILSUBOÐORÐ 1 – Að treysta því að allt fari vel

Fyrsta boðorðið fjallar um traust. Traust er einmitt grundvöllur góðrar heilsu, að öryggisþörfinni sé fullnægt sbr. þarfapýramýda Maslows (1) og kenningar Erik H. Erikson (2) um að fyrsta verkefni bernskunnar sé að læra að treysta. All shall be well, sagði Júlían frá Norwich (14. öld). Það verður allt í lagi með mig. Guð leiðir mig í og út úr þrengingunum. Í traustinu til Guðs felst hugarró sem bæði er forvörn gegn sjúkdómum og stuðlar að lækningu.

Annað boðorð: Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.

HEILSUBOÐORÐ 2 – Að finna hvað eflir lífskraftinn okkar

Nafn Guðs er nærvera Guðs, vera Guðs í lífi okkar. Guð ER innsti kjarni tilveru okkar, Lífið sjálft (sbr. orð Jesú: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið). Postulinn hvetur til þess að allt sem við gerum og segjum ættum við að gera í nafni Drottins Jesú (Kól 3.17). Það merkir að hvað sem við segjum eða tökum okkur fyrir hendur ætti að efla Lífið frekar en að eyða því í hégóma. Að forðast að leggja nafn Guðs við hégóma gæti í þessu samhengi þýtt að forðast allt það sem dregur úr lífskrafti okkar og annarra. Í stað þess ættum við að biðja Guð að hjálpa okkur að efla lífið. Við getum spurt okkur sjálf: Hvað er það sem eflir mína heilsu og hreysti? Þá er það einmitt það sem við skulum iðka.

Þriðja boðorð: Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.

HEILSUBOÐORÐ 3 – Að hvíla sig og hlúa að svefninum

Hvíld er miðlæg í góðri heilsu. Að hlú að svefninum sínum, fara að sofa fyrir ellefu hvert einasta kvöld og fara á fætur eftir 7-8 tíma svefn, halda góðri svefnrútínu, er afar mikilvægt fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu. Og að eiga sér hvíldardag, svo sem Hebreunum var uppálagt til forna, verður seint ofmetið. Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna, segir Jesús (Mark 2.27) og á að vera frátekinn fyrir andlega og uppbyggilega iðju: Sex daga skal verk vinna en sjöunda daginn skal vera algjör hvíld, helg samkoma. Þá skal ekkert verk vinna. Þetta er hvíldardagur fyrir Drottin hvar sem þið búið (3Mós 23.3) Flest kristið fólk heldur sinn hvíldardag fyrsta dag vikunnar á upprisudeginum, sunnudegi, en upphaflega var hvíldardagurinn síðasti dagur vikunnar til að safna kröftum eftir langa vinnuviku, en líka að efla sig við andlega iðkun, beina sjónum að Guði sem við þiggjum lífið frá. Það getum við gert á svo margvíslegan hátt, til dæmis með því að fara í kirkju, njóta útivistar og samvista við fólkið okkar.

Fjórða boðorð: Heiðra skaltu föður þinn og móður.

HEILSUBOÐORÐ 4 – Að sýna sjálfri sér og öðrum virðingu

Að hlú að tengslum við sína nánustu er eitt af því sem talið er heilsueflandi. Það gildir um foreldra og börn, systkini, frændfólk og vini. Að sýna öðrum virðingu er liður í heilbrigðri sjálfsvirðingu. Kærleikurinn lengir lífið!

Fimmta boðorð: Þú skalt ekki mann deyða.

HEILSUBOÐORÐ 5 – Að næra sig á heilbrigðu fæði

Boðorðið gegn því að deyða mann er kannski svo augljóst að það þarfnast ekki heimfærslu. En við getum líka hugsað það út frá því sem eflir líf og heilsu. Að deyða mann getur líka átt við um okkur sjálf. Er þar nærtækt að minna á sjálfseyðinguna sem flest í að misnota ýmis efni, tóbak, áfengi, lyf. Sumir myndu líka setja þarna hvítu hættuna, hvítan sykur, hvítt hveiti (3) og jafnvel mjólkurvörur. (4)Skyndibitar, mikið unnar matvörur og steiktar úr óhollri fitu, eru líka á þessum válista. Svo er hitt, að vanrækja ekki það sem gerir okkur gott, trefjaríkt fæði, ávexti og grænmeti (MUNIÐI: FIMM Á DAG), fisk, helst feitan, lýsi, hnetur og fræ. Minna má á að hæfileg líkamsþyngd er eitt af því sem er til varnar krabbameini. Þar leikur mataræði og hreyfing lykilhlutverk en líka svefninn. Góður svefn er grennandi!

Sjötta boðorð: Þú skalt ekki drýja hór.

HEILSUBOÐORÐ 6 – Að forðast kynsjúkdóma

Að lifa hreinlega og siðlega í orðum og verkum, eins og Lúther orðar það í skýringum sínum (5) við boðorðin 10, er mikilvæg forvörn gegn krabbameini, einkum í leghálsi.(6) Það er alveg ljóst að það að varðveita trúfesti við maka sinn er mikilvæg forvörn. Ef við öll ættum sama rekkjunaut alla ævi væri líklega hægt að útrýma kynsjúkdómum og þar með einhverjum tilvikum krabbameins.

Sjöunda boðorð: Þú skalt ekki stela.

HEILSUBOÐORÐ 7 – Að forðast álag og hreyfa sig reglubundið

Boðorðið um að sleppa því að stela getum við tengt við boðið gegn því að taka líf. Að stela heilsunni frá sjálfri sér með því að vanrækja hvíld, hreyfingu og heilsusamlegt mataræði svo nokkuð sé nefnt er alvarlegt mál. Ef við veljum að skilja boðorðið bókstaflega má líka minna á að þjófnaður veldur streitu. Að svíkja og beita brögðum hlýtur að ræna okkur nætursvefni og valda miklu álagi. Álag er eitt af því sem forðast ber til að varðveita heilsu sína. Reglubundin hreyfing og útivera er ein mikilvægasta leiðin til að losa sig við streitu. Hálftími á dag, alla daga vikunnar, er talið duga nema ef fólk þarf að grennast. Þá er klukkutíminn nær lagi en munið að margt smátt gerir eitt stórt. Tíu mínútna ganga kvölds og morgna og um miðjan dag getur gert mikið.

Áttunda boðorð: Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

HEILSUBOÐORÐ 8 – Að temja sér jákvætt hugarfar

Um daginn heyrði ég að lygar hefðu slæm áhrif á heilsu okkar. Ekki veit ég hvort það hefur verið vísindalega sannað en það hljómar skynsamlega. Að ljúga, eins og að stela, veldur streitu og flækir lífið. Að baktala ber vott um neikvætt hugarfar, dómssýki og öfund og snýst alltaf gegn okkur. Lúther segir í skýringum sínum að heldur ættum við að afsaka annað fólk, tala vel um það og færa allt til betri vegar. Jákvætt hugarfar er talið afar heilsusamlegt og víst er að það eflir lífið innra með okkur og smitar lífsgleði út á við.

Níunda boðorð: Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.

Tíunda boðorð: Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.

HEILSUBOÐORÐ 9 – Að gleðjast yfir því sem við höfum

Þessi boðorð, það 9. og 10., eru upprunalega eitt boðorð sem var aðskilið til að halda tölunni tíu þegar annað boðorðið (um myndbannið) var afnumið af sumum kristnum kirkjudeildum. Þetta boðorð snýst um að sleppa allri ágirnd og græðgi. Það er mjög heilsusamleg lífsregla. Að gleðjast yfir því sem við höfum léttir af okkur þeirri byrði sem getur farið mjög illa með heilsu okkar, að vera sífellt á þönum eftir meiru. Æðruleysi og jafnaðargeð bendir okkur aftur á fyrsta boðorðið, um að treysta Guði og finna þar öryggi gegn því sem vill svipta okkur hugarró.

HEILSUBOÐORÐ 10 – Að stunda bæn og slökun

Bæta má við tvöfalda kærleiksboðorðinu sem minnir okkur á að elska Guð með öllu sem í okkur býr, hugsunum, tilfinningum, viti, vilja og kröftum. Eins eigum við að elska okkur sjálf og þau sem í kring um okkur eru. Til þess að geta elskað okkur sjálf, annað fólk og Guð þurfum við að gefa okkur tíma í að nærast af okkar andlegu uppsprettu. Daglegur tími tekinn frá til bænar, slökunar og íhugunar í nánd Guðs léttir af daglegu þrasi og hjálpar okkur að fela allar hugsanir, tilfinningar og allt annað sem í okkur býr kærleika Guðs. Við það léttist byrðin og lundin, og líkami og sál kemst í jafnvægi. Bæn er besta meðal við kvíðahnút í maga, þyngslum fyrir brjósti og kekki í hálsi. Gangi okkur vel.

Heimildir


(1) Kenning Abraham Maslows (1908-1970) byggðist á svonefndum þarfapíramída (e. hierarchy of needs) sem skiptist í fimm þrep. Á hverju þrepi er tiltekin þörf eða hvöt sem virkjar hegðun fólks og beinir henni að ákveðnum markmiðum.

(2) Erik H. Erikson (1902-1994) setti fram kenningu um þroska fólks frá vöggu til grafar. Samkvæmt kenningu hans þarf fólk að takast á við ákveðin verkefni á hverju þroskaskeiði.

(3) Árið 1972 ritaði Björn L. Jónson læknir grein í ritið Heilsuvernd undir yfirskriftinni: Hvítur sykur og krabbamein. Í greininni segir m.a.: „Í þær (hvítur sykur og hvítt hveiti) vantaði líka nauðsynleg grófefni, sem eru skilyrði fyrir greiðri meltingu og tæmingu úrgangsefna úr ristlinum. Mikil neyzla hinna úrgangslitlu fæðutegunda orsakaði kyrrstöðu í þörmum, aðallega í ristli, og tregar hægðir. …..Af þessum sökum hafa sumir læknar kallað tregar hægðir “sjúkdóm sjúkdómanna og talað í því sambandi um “sjálfseitrun, þar eð eiturefnin myndast innan sjálfs líkamans“. Þessi áratuga gamla viska á enn við í dag. https://nlfi.is/heilsan/hvitur-sykur-og-krabbamein-viskubrunnur-bjorns-l-jonssonar/. Sótt 6.10.2018.

(4) Kristín Vala Ragnarsdóttir: Mjólkurafurðir og krabbamein. Morgunblaðið 04.04.2001. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/598558/. Sótt 6.10.2018 .

(5) Sjá skýringar Lúthers við boðorðin 10 í þýðingu Maríu Ágústsdóttur: http://kirkjan.is/efnisveita/files/bodordin%20tiu.pdf. Sótt 6.10.2018.

(6) Teitur Guðmundsson: Kynsjúkdómar og krabbamein. Vísir 21.10.2014. http://www.visir.is/g/2014710219997. Sótt 6.10.2018.