Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 10. október 2019

Bleika slaufan nánast uppseld og Bleiki dagurinn er á morgun

Örfá eintök eru eftir af Bleiku slaufunni 2019 hjá Krabbameinsfélaginu en mikil eftirspurn hefur verið eftir slaufunni í ár. Enn er þó hægt að fá slaufur hjá einhverjum söluaðilum víða um land.

Á morgun er Bleiki dagurinn, en þá eru fyrirtæki og einstaklingar hvattir til að sýna stuðning við konur og krabbamein með því að bera Bleiku slaufuna, klæðast bleiku og skreyta eða lýsa húsakynni með bleiku.

Árlega grein­ast um 800 kon­ur með krabba­mein og af þeim rúm­lega 200 kon­ur með brjóstakrabba­mein. Um 80% lands­manna seg­jast hafa greinst eða þekkja ein­hvern ná­kom­inn sem hef­ur greinst með krabba­mein.

„Málefnið stendur mörgum nærri og við erum himinlifandi yfir þessu góða gengi Bleiku slaufunnar í ár. Okkur óraði ekki fyrir því að þessi breyting úr nælu í hálsmen færi svona vel í fólk. Hönnun slaufunnar er líka einstök, eins og hún er reyndar alltaf, en Guðbjörg í Aurum á svo sannarlega heiður skilinn fyrir að hitta vel í mark,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélaginu.

Uppboð

Guðbjörg Kristín Ingvarsdóttir, skartgripahönnuður í Aurum hannar Bleiku slaufuna í ár, en hún sérsmíðaði tvö gulleintök, hálsmen með bleikum demanti og nælu með bleikum demanti, en það er eina nælan sem framleidd er í átakinu í ár. Þessir tveir skartgripir verða boðnir upp til styrktar átakinu og hægt er að bjóða í þá á Facebooksíðu Bleiku slaufunnar. Uppboðinu lýkur á þriðjudaginn, 15. október kl. 16:00.

„Við sjáum fólk úti um allt ganga með hálsmenið og þannig sýnir það stuðning í verki. Það er alveg á hreinu að sá stuðningur skilar sér ekki bara til okkar hjá Krabbameinsfélaginu heldur til þeirra 8200 kvenna í landinu sem hafa fengið krabbamein og fólksins í kringum þær. Það er auðvitað ekkert annað en dásamlegt! Við höfum heyrt af fólki sem saknar nælunnar og hefur brugðið á það ráð að taka menið af keðjunni og breyta í nælu. Það er gaman að því hvað fólk er úrræðagott þegar það vill sýna málstaðnum stuðning, En við sjáum líka aukningu á notkun Bleiku slaufunnar hjá yngri konum sem vilja frekar hálsmen og það er afar ánægjulegt,“ segir Halla.

Bleiki dagurinn

Á morgun, föstudaginn 11. október er Bleiki dagurinn. Mikill fjöldi fyrirtækja nýtir tækifærið til að sýna stuðning við konur sem eru með eða hafa fengið krabbamein. Dagurinn hefur mjög jákvætt yfirbragð og flestir taka honum fagnandi sem tækifæri til hópeflis og gleði.

„ Hjá okkur í Krabbameinsfélaginu verður sannarlega Bleik stemning og við hvetjum auðvitað alla til að taka þátt í gleðinni, sýna stuðning og senda okkur „bleikar“ myndir sem við birtum og miðlum þannig stemningunni sem er í gangi,“ segir Halla.