Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. september 2019

Bleika slaufan 2019 komin í hús

Það var ánægjulegur dagur í Skógarhlíðinni í dag þegar TVG-Zimsen kom með Bleiku slaufuna í hús, tíunda árið í röð.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri, tók við fyrstu slaufuprýddu kössunum frá Birni Einarssyni, framkvæmdastjóra TVG-Zimsen. Fyrirtækið flutti slaufuna frá Hong Kong án endurgalds eins og þau hafa gert undanfarinn áratug og gera félaginu þannig kleift að halda kostnaði við átakið í lágmarki.

„Ekki nóg með þennan mikilvæga stuðning að koma slaufunni til landsins, heldur í ár bæta þau um betur og dreifa slaufunni innanlands til um 200 sölustaða án nokkurs kostnaðar. Félagið kann ykkur bestu þakkir fyrir dýrmætt samstarf,“ sagði Halla í dag þegar hún tók við sendingunni af Birni.

Sala Bleiku slaufunnar hefst 1. október, en átakið hefst formlega með Bleika bíóinu í Háskólabíó þann sama dag og hvetur félagið konur til að taka þátt í bleikri bíóstemningu. Miði á bíóið og Bleika slaufan eru seld saman hér.