Af hverju er ekki skimað fyrir fleiri tegundum krabbameins?

Skimað er fyrir tveimur tegundum krabbameins á Íslandi, brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini. Þriðja skimunarverkefnið hefur lengi verið í undirbúningi þar sem stefnt er að leit að krabbameini í ristli og endaþarmi. 

Hér má lesa um ávinning og mikilvægi skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.

Hvers vegna er ekki leitað skipulega að fleiri tegundum krabbameins en gert er ?

Skimun eða skipulögð hópleit kallast það þegar leitað er að krabbameini eða forstigsbreytingum í einkennalausum einstaklingum sem leitt gætu til krabbameins. Markmið slíkrar hópleitar er að draga úr nýgengi (tíðni) og dánartíðni af völdum ákveðinna tegunda krabbameins.

Skimað er fyrir tveimur tegundum krabbameins á Íslandi, brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini. Þriðja skimunarverkefnið er í undirbúningi þar sem stefnt er að leit að krabbameini í ristli og endaþarmi.

En hvers vegna er ekki leitað skipulega að mun fleiri tegundum krabbameins?

Til að mögulegt sé að leita skipulega að krabbameini af ákveðinni tegund þarf að vera til áreiðanleg og hagkvæm rannsókn:

  • hún þarf að vera næm á óeðlilegar frumubreytingar sem geta orðið að hættulegu krabbameini án þess að greina hættulitlar breytingar sem illvígt krabbamein. Engin rannsókn er þó svo góð að hún greini allt réttilega. Annars vegar eru alltaf einstaklingar sem hafa sjúkdóminn en greinast þó ekki og hins vegar greina rannsóknir líka alltaf ranglega einhverja sem í raun eru heilbrigðir. Til að ákveðin rannsókn teljist heppileg til hópleitar mega slíkar ofgreiningar og vangreiningar ekki vera of miklar.
  • hún þarf að vera þess eðlis að fólk vilji fara í rannsóknina.
  • Sjálf rannsóknin má ekki vera hættuleg heilsu og lífsgæðum fólks. Sé ekki búið að sýna fram á að ákveðin rannsókn geti bjargað mannslífum og ekki ljóst hvort hún geri meiri skaða en gagn er ekki mælt með skimun.
  • hún verður að vera þjóðhagslega hagkvæm. Ef tiltekið krabbamein er sjaldgæft er ólíklegt að það sé hagkvæmt að leita að því hjá heilli þjóð eða stórum þjóðfélagshópum, jafnvel þó til sé tiltölulega áreiðanleg rannsókn. Í slíkum tilfellum er leitinni frekar beint að sérstökum áhættuhópum.

Einu rannsóknirnar sem taldar eru falla að ofantöldum viðmiðum eru þær sem skima fyrir brjósta-, legháls- og ristilkrabbameini. Viðmiðin eru alþjóðleg og takmarkast því víðtæk krabbameinsskimun í öðrum löndum einnig við þessar þrjár tegundir krabbameina. Vísindamenn leita þó sífellt nýrra leiða. Sem dæmi má nefna að vissar rannsóknir benda til þess að hugsanlega verði síðar hægt að leita skipulega að krabbameini í blöðruhálskirtli, lungum og eggjastokkum.