Lára G. Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri KÍ 27. september 2016

Nýjung í meðferð HER2-jákvæð æxla

Konum sem hafa ákveðna tegund af brjóstakrabbameini, þ.e. HER2-jákvæð æxli, býðst nú marksækin meðferð sem byggir á því að lyf hefur einungis áhrif á krabbameinsfrumur en ekki aðrar frumur líkamans. Marksæku lyfin skaða þannig ekki eðlilegar heilbrigðar frumur. Slík lyf starfa líkt og mótefni sem líkaminn framleiðir sjálfur með því að setjast á viðtaka og aftengja þá. Slík lyf geta því einnig kallast mótefnalyf.

En hvað þýðir að hafa HER2-jákvætt æxli?

Öll gen innihalda uppskriftir að hinum ýmsum próteinum sem frumurnar okkar þurfa á að halda til að starfa eðlilega. Sum gen og próteinin sem þau búa til, geta haft áhrif á hvernig brjóstakrabbamein hegðar sér og hvernig það bregst við ákveðinni meðferð.

HER2 stendur fyrir human epidermal growth factor receptor 2. HER2-gen búa til HER2-prótein sem eru viðtakar á brjóstafrumum. Undir venjulegum kringumstæðum tekur HER2-genið þátt í að stjórna hvernig heilbrigðrar brjóstafrumur vaxa, skipta sér og gera við ef eitthvað hefur farið úrskeiðis. Hjá einni af hverri fimm konum sem greinast með brjóstakrabbamein virkar HER2-genið ekki sem skildi og framleiðir genið of mörg afrit af sjálfu sér. Öll þessi auka HER2-gen sem safnast í frumunni senda skilaboð til brjóstafrumunnar um að fjölga sér hraðar en undir eðlilegum kringumstæðum. Það hefur einnig í för með sér að þau eru líklegri til að dreifa sér um líkamann eða taka sig upp aftur að lokinni meðferð, í samanburði við HER2-neikvæð æxli.

Rannsóknir hafa sýnt að sum brjóstakrabbamein sem eru HER2-jákvæð geta orðið HER2-neikvæð með tímanum og öfugt. Ef brjóstakrabbamein tekur sig upp aftur er því mikilvægt að athuga hvort þau eru HER2-jákvæð eða neikvæð. 

70% líkur á að sjúkdómurinn virðist hverfa

Nú hafa verið þróuð lyf sem gefa góðan árangur í meðferð HER2-jákvæðra brjóstakrabbameina og eru lyfin trastuzumab, pertuzmab og ado-trastuzumab emtansine notuð hér á landi. Lyfin eru venjulega gefin áður en skurðaðgerð er framkvæmd og er árangurinn að hjá um 70% eru lítil sem engin merki um sjúkdóminn að meðferð lokinni. Stundum eru lyfin gefin fyrir skurðagerð og þá er æxlið í brjóstinu merkt í ástungu áður en meðferð hefst til að fjarlægja rétt svæði burt og bjóða upp á minna umfang skurðaðgerðar. Það er alltaf nauðsynlegt að fjarlægja svæðið þar sem æxlið var og eftir aðgerð er trastuzumab venjulega gefið í eitt ár en hin lyfin mislengi, eftir hvað á við, ef sjúkdómurinn hefur dreift sér. Oft er hægt að halda sjúkdómnum niðri í áratugi með þessum lyfjum, sem þolast oft vel. Lyfin auka líkur á að sjúkdómurinn hverfi og að hann taki sig aldrei upp síðar.

Lyfin þolast yfirleitt vel og valda fáum aukaverkunum þó svo að í sumum tilvikum geti það haft áhrif á hvít blóðkorn, ofnæmisviðbrögð eða hjartavöðva, sérstaklega ef það er gefið ásamt anthracyclin lyfjum.

Lestu allt um brjóstakrabbamein á vefsíðu Krabbameinsfélagsins.