Þekktu einkennin

Mikilvægt er að veita athygli þeim merkjum sem líkaminn kann að gefa um að heilsunni sé hætta búin. Viss einkenni vekja grun um krabbamein þó að vissulega geti þau einnig verið til marks um meinlausari kvilla.

Vertu meðvituð

Nokkur einkenni sem konur ættu ekki að láta fram hjá sér fara:

  • Breytingar á brjóstum (hnútur, sár, útferð, bólga, roði og/eða þykknun húðar)
  • Óreglulegar blæðingar og blæðingar eftir tíðahvörf 
  • Blæðing frá endaþarmi eða blóð í hægðum 
  • Útferð frá leggöngum 
  • Þaninn kviður og uppþemba
  • Óútskýrt þyngdartap eða þyngdaraukning
  • Viðvarandi hósti
  • Eitlastækkanir 
  • Óútskýrð þreyta sem minnkar ekki við hvíld
  • Breytingar á húð og slímhúð (til dæmis sár í munni sem gróa ekki, sár á kynfærum eða breytingar á fæðingarblettum) 

Einkennin hér að ofan geta vakið grun um krabbamein en geta einnig verið til marks um aðra sjúkdóma.  Næstum öll einkenni sem krabbamein geta haft í för með sér geta einnig verið til marks um ýmislegt annað. Mikilvægt er þó að fá úr því skorið hjá lækni. Hér má finna frekari lýsingu á helstu einkennum krabbameina.

Hringdu  í síma 800 4040 eða sendu okkur línu á radgjof@krabb.is ef þú vilt fá ráðgjöf hjúkrunarfræðings vegna einkenna. 

Þó lögð sé áhersla á krabbamein hjá konum í Bleiku slaufunni er um að gera að huga líka að körlunum í okkar lífi. Hér má finna upplýsingar um algengustu krabbamein hjá körlum á Íslandi.