Önnur krabbamein hjá konum

 • Bleika slaufan 2018

Konur eru hvattar til þátttöku í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameini. Konur geta þó fengið margvísleg krabbamein, bæði í kvenlíffæri og önnur líffæri.

Krabbamein í kvenlíffærum (fyrir utan brjóst- og leghálskrabbamein)

Legbolskrabbamein

Legbolskrabbamein er fimmta algengasta krabbameinið hjá íslenskum konum og greinast um 37 konur árlega. Horfur eru almennt séð góðar því sjúkdómurinn uppgötvast oft snemma í sjúkdómsferlinu, í kjölfar óreglulegra tíðablæðinga eða blæðinga eftir tíðahvörf. Orsakir legbolskrabbameins eru nokkuð vel þekktar og koma áhrif kvenhormóna mikið við sögu. 

 • Hér má lesa um helstu einkenni, orsakir, greiningu, meðferð, algengi og lífshorfur legbolskrabbameins.

Eggjastokkakrabbamein

Árlega greinast um 14 konur á Íslandi með krabbamein í eggjastokkum. Orsakir sjúkdómsins eru í langflestum tilfellum óþekktar en þættir sem draga úr tíðni egglosa, svo sem meðganga eða notkun getnaðarvarnarpillu, minnka líkur á eggjastokkakrabbameini. Í sumum tilfellum finnst samband milli krabbameins í eggjastokkum og brjóstum og er það talið tengjast erfðaþáttum. Sjúkdómseinkenni eru mjög óljós og ekki auðþekkt. Oft er um að ræða óþægindi og/eða verki frá kviðarholi.

Krabbamein í leggöngum og ytri kynfærum kvenna

Árlega greinast um átta konur á Íslandi með krabbamein í leggöngum og ytri kynfærum kvenna. Talið er að HPV-veirur eigi þátt í myndun flestra þessara meina. Helstu einkenni eru óþægindi (svo sem kláði, sviði, roði, blæðingar, hnúður eða sár sem grær illa) í ytri kynfærum, blóðug útferð frá leggöngum eða sársauki, t.d. í sambandi við þvaglát.

 • Hér má lesa um helstu einkenni, orsakir, greiningu, meðferð, algengi og lífshorfur krabbameina í leggöngum og ytri kynfærum kvenna.

Tíu algengustu krabbamein kvenna á Íslandi

Tíu algengustu krabbamein kvenna á Íslandi árin 2013-2017 voru:

 • Brjóstakrabbamein (að meðaltali 210 konur á ári)
 • Lungnakrabbamein (að meðaltali 93 konur á ári)
 • Ristilkrabbamein (að meðaltali 64 konur á ári)
 • Húðkrabbamein án sortuæxla (að meðaltali 52 konur á ári)
 • Legbolskrabbamein (að meðaltali 37 konur á ári)
 • Krabbamein í heila og miðtaugakerfi (að meðaltali 35 konur á ári)
 • Sortuæxli í húð (að meðaltali 23 konur á ári)
 • Eitilfrumuæxli (að meðaltali 23 konur á ári)
 • Nýrnakrabbamein (að meðaltali 20 konur á ári)
 • Skjaldkirtilskrabbamein (að meðaltali 20 konur á ári)

Frekari upplýsingar um hvert krabbamein fyrir sig má finna á krabb.is.

Taktu prófið! Hvað veistu um krabbamein (almennt)?