Leghálskrabbamein

Leghálskrabbamein er einkennalaust í byrjun. Með því að mæta reglulega í skimun er yfirleitt hægt að koma í veg fyrir mein eða lækna það. 

Leghálskrabbamein er eitt fárra krabbameina þar sem orsakir eru þekktar en HPV-veirur sem smitast við kynlíf valda sjúkdómnum í 99% tilfella. Á meðalári greinast um 19 konur með leghálskrabbamein. Leghálskrabbamein er eitt fárra krabbameina sem hægt er að greina á forstigi og lækna. Frá því að skimun fyrir leghálskrabbameini hófst hér á landi fyrir hálfri öld hefur dánartíðni úr sjúkdómnum lækkað um 90%.

Helstu einkenni sem gætu bent til leghálskrabbameins

Leghálskrabbamein er einkennalaust í byrjun. Með því að mæta reglulega í skimun er yfirleitt hægt að greina meinið það snemma að hægt er að lækna það. Ákveðin einkenni geta verið merki um leghálskrabbamein þó þau séu oftast af saklausari toga:

  • Óþægindi við samfarir
  • Blæðing eftir samfarir
  • Óreglulegar blæðingar eða milliblæðingar

Ef þú ert með ofangreind einkenni er fyrsta skref að leita til heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis. 

Orsakir leghálskrabbameins

HPV-veirur sem smitast við kynlíf valda sjúkdómnum í 99% tilfella. Viðvarandi sýking með HPV er aðal orsök og áhættuþáttur fyrir leghálskrabbameini. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að aðrir þættir geta verið samverkandi með HPV og aukið áhættu á leghálskrabbameini:

  • Reykingar
  • Margir rekkjunautar (notkun smokka og/eða sofa hjá einum og sama einstaklingi minnkar líkur á leghálskrabbameini)
  • Aðrar sýkingar í kynfærum t.d. klamydíusmit
  • Ónæmisbæling, HIV (veiran sem veldur alnæmi), ónæmisbælandi sjúkdómar eða ónæmisbælandi lyf
  • Fætt fleiri en þrjú börn
  • Notað getnaðarvarnarpilluna í langan tíma (meira en fimm ár)

Bólusetning fyrir HPV-veirum er talin veita a.m.k. 70% vörn gegn leghálskrabbameini. Þar sem ekki fæst full vörn með bólusetningunni er nauðsynlegt að bólusettar stúlkur mæti reglulega í skimun fyrir leghálskrabbameini síðar á ævinni.

Hér má lesa nánar um helstu einkenni, orsakir, greiningu, meðferð, algengi og lífshorfur leghálskrabbameins.

Greining og meðferð leghálskrabbameins

Skimun

Skimun fyrir leghálskrabbameini (leghálskrabbameinsleit) er framkvæmd með því að taka frumusýni frá leghálsi og senda til rannsóknar. Markmiðið er að finna eins fljótt og hægt er þær konur sem hafa frumubreytingar (sem eru forstig leghálskrabbameins) eða krabbamein á snemmstigi. Því fyrr sem hægt er að bregðast við og fjarlægja þess háttar frumubreytingar því betra. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að krabbamein nái að myndast.

Hvað ef það finnast frumubreytingar?

Leghálsspeglun er smásjárskoðun á leghálsi sem er gerð ef frumubreytingar finnast í frumusýni. Tekin eru vefjasýni frá svæðum sem eru afbrigðileg og greining er gerð við smásjárskoðun vefjameinafræðings. Ef niðurstaða vefjagreiningar er sú að um krabbamein sé að ræða er gerð ítarlegri sjúkdómsskoðun, m.a. með myndrannsóknum og skoðun í svæfingu, til að sjá hvort æxlið hafi dreift sér.

Meðferð

Forstigsbreytingar leghálskrabbameins eru meðhöndlaðar með því að fjarlægja vef með slíkum breytingum. Gerður er svokallaður keiluskurður þar sem hluti leghálsins er fjarlægður. Konan getur ennþá fætt börn eftir keiluskurð.

Stundum er nægilegt að meðhöndla leghálskrabbamein á byrjunarstigi með keiluskurði eingöngu. Lítil en staðbundin mein eru stundum tekin í stærri aðgerð en hluta leghálsins þó haldið eftir þannig að kona hafi möguleika á að fæða barn. Ef krabbameinið er lengra gengið getur þurft að fjarlægja allt legið og nærliggjandi eitla með skurðaðgerð (legnám).

Ef ekki er hægt að fjarlægja meinið með skurðaðgerð er geislameðferð oft beitt. Nú eru yfirleitt gefin krabbameinslyf samhliða geislameðferð.

Hvar er leghálsinn staðsettur og hvert er hlutverk hans?

Leghálsinn er hluti af æxlunarfærum kvenna. Þetta er neðsti hluti legsins og innan við hann eru leggöngin. Út um leghálsinn kemur tíðablóð og útferð og inn um hann synda sáðfrumur ef sæði er í leggöngum. Þannig virkar leghálsinn sem nokkurs konar „lok“ milli legs og legganga.

Leghalskrabbamein