Brjóstakrabbamein

Mein í brjósti uppgötvast oftast í skimun eða við sjálfsskoðun brjósta. Því fyrr sem brjóstakrabbamein greinist, þeim mun betri eru lífshorfur.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið hjá íslenskum konum og greinast um 240 konur á hverju ári. Lífshorfur eru góðar og fara stöðugt batnandi. Karlmenn geta líka fengið brjóstakrabbamein en um einn karl greinist á móti hverjum 100 konum. Mein í brjósti uppgötvast oftast í skimun eða við sjálfsskoðun brjósta. Því fyrr sem brjóstakrabbamein greinist, þeim mun betri eru lífshorfur.

Þekktu einkenni sem geta bent til brjóstakrabbameins

 • Hnútur eða fyrirferð í brjósti, oft harður/þéttur og sjaldan aumur
 • Hnútur í handarkrika
 • Inndregin húð eða geirvarta
 • Blóðug eða glær útferð frá geirvörtu
 • Exemlíkar breytingar á geirvörtu eða sár sem ekki grær
 • Verkir og eymsli

Ef einkenni eru í brjóstum þá er fyrsta skref að leita til heimilislæknis / heilsugæslustöðvar sem metur þörf fyrir frekari rannsóknir og sendir beiðni ef þörf er á frekari skoðun.

Einkenni á borð við þau sem hér að ofan er lýst eru oftast ekki rakin til krabbameins en mikilvægt er að fá úr því skorið. 

Orsakir brjóstakrabbameins

Ekki er vitað hvað veldur brjóstakrabbameini en þekktir eru nokkrir þættir sem geta aukið líkurnar:

 • Fjölskyldusaga. Talið er að innan við eitt af hverjum tíu brjóstakrabbameinum tengist erfðum. Fundist hafa stökkbreytingar í ákveðnum genum (BRCA-1 og BRCA-2) sem auka verulega hættu á að konur sem þær bera fái brjóstakrabbamein.
 • Kvenhormón. Áhættan er lítillega aukin hjá konum sem byrja ungar á blæðingum og fara mjög seint á breytingaskeið. Áhættan eykst einnig við langvarandi notkun samsettrar getnaðarvarnarpillu og langvarandi notkun tíðahvarfahormóna.
 • Offita eftir tíðahvörf
 • Áfengisneysla
 • Vaktavinna
 • Hreyfingarleysi

Hér má lesa um helstu einkenni, orsakir, greiningu, meðferð, algengi, lífshorfur og hvernig stökkbreyting í BRCA1 og BRCA2 genum tengist aukinni hættu á krabbameinum.

Greining og meðferð brjóstakrabbameins

Meinsemd í brjósti uppgötvast oftast í skimun  eða þegar konur finna þéttingu eða hnút í brjósti við sjálfsskoðun brjósta. Endanleg greining á því hvort um brjóstakrabbamein eða góðkynja breytingu er að ræða fer fram með meinafræðilegri skoðun frumusýnis eða vefjasýnis frá meininu.

Meðferð byggist á samvinnu þar sem ýmsir fagaðilar koma að með mismunandi sérþekkingu. Yfirleitt er fyrsta meðferð skurðaðgerð og fer þá eftir meininu hvort nóg sé að gera fleygskurð (æxlið og svolítill eðlilegur brjóstvefur í kring fjarlægður), hvort þurfi eitlanám (sá vefur holhandar sem inniheldur eitla fjarlægður) eða hvort mælt sé með að fjarlægja allt brjóstið. Geislameðferð er yfirleitt beitt eftir fleygskurð á þann brjóstvef sem eftir er og í flestum tilfellum er lyfjameðferð einnig talin ráðleg, hvort tveggja til að draga úr líkum á endurkomu sjúkdómsins.