Lífsstíll og ristilkrabbamein

Krabbamein í ristli og endaþarmi, oft kallað ristilkrabbamein til einföldunar, er þriðja algengasta krabbameinið hjá konum á Íslandi. Á hverju ári greinast um 90 konur á Íslandi með krabbamein í ristli og endaþarmi. Meðalaldur við greiningu er um 70 ár. Almennt eru horfur þeirra sem greinast með krabbamein í ristli og endaþarmi góðar. Ef krabbameinið uppgötvast snemma er langoftast hægt að fjarlægja það með skurðaðgerð. Við árslok 2020 voru 728 konur á lífi með ristilkrabbamein.

Krabbamein í ristli og endaþarmi er eitt fárra krabbameina sem hægt er að finna, og jafnvel koma í veg fyrir, á byrjunarstigum. Árið 2016 var undirritað samkomulag hér á landi um undirbúning skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hjá körlum og konum á aldrinum 60-69 ára og eitt af markmiðum krabbameinsáætlunar er að skimun fyrir meininu hefjist sem fyrst. Lestu nánar um mikilvægi skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi

Ert þú með einkenni frá meltingarvegi eða önnur óþægindi?

 • Er blóð í hægðum án augljósra skýringa?
 • Ertu með svartar hægðir?
 • Hafa orðið viðvarandi breytingar á hægðavenjum, t.d. niðurgangur eða hægðatregða sem varir vikum saman?
 • Ertu með meltingareinkenni svo sem kviðverki og uppþembu?
 • Áttu við blóðleysi af óþekktri orsök að stríða?
 • Ertu að léttast óeðlilega hratt eða mikið?
 • Ertu óeðlilega þreklaus?

Ristill og endaþarmur eru síðustu hlutar meltingarvegarins. Krabbamein í ristli og endaþarmi veldur oft engum einkennum í byrjun en stundum veldur það smávægilegum blæðingum, breytingum á hægðum (niðurgangur eða hægðartregða sem varir í nokkrar vikur) eða kviðverk. Einkennin geta þó stafað af öðru en krabbameini en mikilvægt er að láta lækni skera úr um það. Þú getur leitað til heimilislæknis eða meltingarfæralæknis vegna einkenna. Þér er líka velkomið að senda tölvupóst, hringja eða koma í kaffi til starfsfólksins í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins sem leiðbeinir þér, þér að kostnaðarlausu.

Ertu kannski að spá í önnur einkenni krabbamein?

Hér eru frekari upplýsingar.

 Hvað er hægt að gera til að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi?

 Samkvæmt skýrslu frá Alþjóðakrabbameinsrannsóknarsjóðnum sem byggir á yfirferð fjölda rannsókna þá eru nokkuð margir lífsstílsþættir sem geta haft áhrif á líkurnar á myndun krabbameins í ristli og endaþarmi. 

Verndandi þættir, sem vitað er að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi eru: 

 • Regluleg líkamleg hreyfing
 • Neysla á heilkornavörum – til dæmis: rúgur, hafrar, bygg, heilhveiti og hýðishrísgrjón
 • Neysla á trefjaríkum vörum – til dæmis : heilkornavörur, ávextir, grænmeti, baunir, hnetur og fræ
 • Neysla á mjólkurvörum (hæfilegt magn er 500 millilítrar/grömm á dag)
 • Að taka kalk sem fæðubótarefni (þarf samt ekki ef viðkomandi neytir mjólkurvara)

 Þættir sem vitað er að auka líkur á meininu eru:

 • Neysla á rauðu kjöti (takmarka ætti neyslu við 350-500 grömm á viku)
 • Neysla á unnum kjötvörum – til dæmis: saltkjöt, spægipylsur, pepperóní, beikon, pylsur, bjúgu, hangikjöt og skinka
 • Áfengisneysla
 • Að vera í yfirþyngd
 • Reykingar
 • HPV-veiru sýking (áhættuþáttur fyrir endaþarmskrabbamein)

Tekið er tillit til þessara áhættuþátta og verndandi þátta í opinberum ráðleggingum um mataræði þar sem lögð er áhersla á mataræðiði í heild sinni. Þannig getum við lagt áherslu á að borða að stærstum hluta fæðutegundir úr jurtaríkinu sem og fisk og sjávarfang. Í ráðleggingunum er líka lögð áhersla á minni neyslu kjöts (alifuglakjöt undanskilið) og þá sérstaklega á unnum kjötvörum og hæfilegs magns mjólkurvara (til að uppfylla kalkþörf líkamans) séu 500 millilítrar eða grömm á dag.

Auk þessara lífsstílsþátta eru aðrir áhættuþættir geta aukið líkur á ristilkrabbameini svo sem ættarsaga (ef foreldrar, systkini eða barnið manns greinist með ristilsepa eða ristilkrabbamein), langvarandi bólgusjúkdómar í ristli og endaþarmi (svo sem sáraristilbólga), að vera hávaxin og nokkrir sjaldgæfir erfðasjúkdómar. 

Embætti landlæknis gefur ráðleggingar um mataræði, hreyfingu og svefn sem gott er að styðjast við til að stuðla að hæfilegri líkamsþyngd.

 Langar þig að vita meira um krabbamein í ristli og endaþarmi?

Hér má finna nánari upplýsingar.

 Hefur þú greinst með krabbamein í ristli eða endaþarmi?

Hér má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar.