Lífsstíll og legbolskrabbamein

Samkvæmt skýrslu frá Alþjóðakrabbameins-rannsóknarsjóðnum sem byggir á yfirferð fjölda rannsókna þá eru nokkrir lífsstílsþættir sem geta haft áhrif á myndun legbols­krabbameins staðfestir. 

Þessir lífsstílsþættir eru:

  • Að borða fæðutegundir með háum sykurstuðli* eykur líkur
  • Líkamleg hreyfing af öllu tagi minnkar líkur
  • Að drekka kaffi (með eða án koffíns) minnkar líkur

*Fæðutegundir með háan sykurstuðul eru fæðutegundir sem innihalda kolvetni s.s. sykur en lítið eða ekkert af trefjum. Heilkornavörur eru dæmi um fæðutegundir með lágan sykurstuðul.

Einnig eru vísbendingar um að kyrrseta geti aukið líkur á krabbameini, þó er ekki um staðfestan áhættuþátt að ræða.

Aðrir þættir sem tengjast legbolskrabbameini

Hæð og þyngd

Líkt og fyrir brjóstakrabbamein þá eru ofþyngd, offita og það að vera hávaxin staðfestir áhættuþættir legbolskrabbameins.

Embætti landlæknis gefur ráðleggingar um mataræði, hreyfingu og svefn sem gott er að styðjast við til að stuðla að hæfilegri líkamsþyngd.

Tíðahringur og frjósemi

Eftirfarandi þættir auka líkurnar:

  • Að byrja á blæðingum fyrir 12 ára aldur
  • Að fara seint í tíðahvörf (eftir 55 ára aldur)
  • Að hafa ekki orðið barnshafandi

Ofangreindir þættir eru verndandi sé þeim öfugt farið þ.e. að byrja seint á blæðingum, fara snemma í tíðahvörf og að hafa orðið barnshafandi. Einnig er getnaðarvarnarpillan talin auka líkurnar sem og notkun Tamoxifen, sem er lyf notað til meðferðar við brjóstakrabbameini.

Ættarsaga

Þar sem ættarsaga er til staðar um legbolskrabbamein og krabbamein í ristli og endaþarmi eru auknar líkur fyrir afkomendur. Einnig eru konur með lynch-heilkenni með auknar líkur á legbolskrabbameini.