Bleika slaufan 2017

Ása Gunnlaugsdóttir gullsmiður og hönnuður.

Sigurvegari í samkeppni um hönnun Bleiku slaufunnar 2017 er asa iceland en Ása Gunnlaugsdóttir gullsmiður og hönnuður hannaði slaufuna. Skartgripir asa iceland eru seldir í skartgripaverslunum víða um Ísland og eru þekktir fyrir stílhreina og vandaða hönnun.

Skartgripir asa iceland eru seldir í skartgripaverslunum víða um Ísland og eru þekktir fyrir stílhreina og vandaða hönnun.

Ása hefur víðtæka reynslu í hönnun og smíði skartgripa og hefur starfað sem hönnuður á Íslandi, Finnlandi og í S-Kóreu. Ása lauk MA-prófi í iðnhönnun við University of Art and Design (UIAH) í Helsinki og BA-prófi í gull- og silfursmíðum frá Lahti Design Institute í Finnlandi. Í Finnlandi starfaði hún með námi sem gullsmiður hjá stærsta skartgripafyrirtæki Finnlands, Kalevala Jewelry. Eftir nám kenndi hún skartgripahönnun við UIAH. Síðar rak hún vinnustofu í Helsinki. 

Samkeppnin fór nú fram í sjötta sinn í samstarfi Krabbameinsfélags Íslands og Félags íslenskra gullsmiða. Í ár bárust níu tillögur sem afar erfitt var að velja úr enda allar mjög metnaðarfullar. Við þökkum öllum þeim gullsmiðum sem sendu inn tillögur að Bleiku slaufunni í ár.

Við hjá Krabbameinsfélaginu erum afar ánægð með samstarfið við Félag íslenskra gullsmiða og hlökkum til að þróa það áfram.